154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér fjármálaáætlun við hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég var að reyna að rýna í það hversu mikið ætti að setja inn í fjármálaáætlun, á árunum 2025–2029, er varðar samninga við sjúkraþjálfara. Ég sá ekki neitt, ekki er reiknað með að króna fari þar inn. Ég spyr ráðherra: Hvers vegna ekki? Veit hann ekki hversu mikill þessi kostnaður er, hversu mikið ríkið er búið að spara undanfarin ár, sex til sjö ár, með því að semja ekki við sjúkraþjálfara og senda reikningana á veikt fólk? Eða gleymdist að setja þetta inn?

Það hefur komið í ljós að það er hægt að fara til sjúkraþjálfara í sex skipti án þess að fá sérstaka beiðni. En meðaltal heimsókna til sjúkraþjálfara er um 11 skipti. Ég sé því fram á að ef 10 skipti væru leyfð myndum við sennilega sleppa við megnið af skriffinnskunni. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því? Það yrði líklega lítil skriffinnska hjá læknum varðandi sjúkraþjálfun.

Síðan er hitt sem ég sá ekki, þ.e. að það eigi að halda áfram að efla bráðadeildina. Ég heyrði nýlega um heimsókn á bráðadeildina þar sem viðkomandi þurfti að vera frammi á gangi. Þar var verið að gefa fólki í æð, taka úr því blóð og þar voru allir hlið við hlið. Síðan var verið að rekja sjúkrasögu viðkomandi og ekkert hugað að persónuvernd. Allir heyrðu hvað allir voru að gera, þarna var svo þröngt. Starfsfólkið var alveg að sligast undan álaginu og sjúklingarnir eiginlega í vonlausri aðstöðu.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er að koma einhver lausn á þessu? Þetta getur ekki gengið svona. Það segir sig sjálft að þetta mun enda með því að starfsfólkið kulnar í starfi. Ég spyr: Á fólk sem fer á bráðamóttökuna ekki rétt á að persónuvernd sé í virt og að séð sé til þess að ekki heyri næstum allir í nágrenninu sjúkrasögu þess?