17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

42. mál, áfengislög

Ellert Eiríksson:

Herra forseti. Hér er enn einu sinni hreyft á hv. Alþingi gömlu deilumáli svo sem sjá má á þskj. 42, um breytingar á áfengislöggjöfinni.

Breytingin skal fela í sér heimild til ríkisstjórnarinnar um að leyfa bruggun og sölu öls hér á landi með hærra vínandainnihaldi en 2,25% að rúmmáli eða með öðrum orðum að áfengur bjór verði framleiddur á Íslandi til dreifingar í útsölum ÁTVR.

Hv. 1. flm. frv., varaþm. Jón Magnússon, fylgdi frv. úr hlaði með grg. þar sem m.a. var nánar skilgreindur tilgangur flm. og með leyfi forseta vil ég aðeins renna yfir grg. Á bls. 2 í grg. segir svo um tilganginn:

„1. Að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja,

2. að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar,

3. að afla ríkissjóði tekna,

4. að efla þann hluta íslensks iðnaðar sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum,

5. að samræma áfengislöggjöfina.“

Vil ég, hæstv. forseti, fara nokkrum orðum um þessa fimm meginþætti.

Í fyrsta lagi er sagt: að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja hér á landi.

Ef við lítum á bls. 5 í grg. segjast flm. sjálfir telja, miðað við reynslu annarra þjóða, að til þess geti komið að heildaráfengisneysla á hvern íbúa aukist eitthvað við tilkomu áfengs öls. Neðar á sömu blaðsíðu segir eftirfarandi:

„Frá árinu 1951 til ársins 1981 jókst heildarneysla áfengis á Íslandi úr 1,41 af hreinu áfengi á íbúa í 3,2 l. Þrátt fyrir þessa aukningu neyta Íslendingar minnsts áfengis allra Evrópuþjóða. Neysla á áfengistegundum hefur einnig breyst á undanförnum árum. Þannig hefur sala á sterku áfengi hlutfallslega minnkað frá 1974.“

Að sjálfsögðu getur neysla sterkra drykkja aukist frá núverandi neyslu í lítrum talið þó svo hlutfall þess minnki í heildarneyslu áfengis með tilkomu áfengs öls og vaxandi áfengisneyslu. Meðaltalið og hlutfallið dugar ekki til að benda mönnum á að neysla sterkra drykkja muni minnka í lítrum talið þó hún geri það að hlutfalli.

Lítum þá á í samhengi við það sem hér hefur áður verið sagt samkvæmt þeirra eigin sögn staflið þrjú, en þar segir: „að afla ríkissjóði tekna“.

Eins og hér hefur komið fram er óljóst með hvaða hætti það skal gerast. Í fljótu bragði séð er aðeins hægt að ná því marki með rándýru öli þannig að hvert alkóhólprósent verði tvöfalt dýrara í áfengu öli en sterkum drykkjum og færu þá að rýrna möguleikar á samdrætti í neyslu sterkra drykkja, sbr. tilgang samkvæmt 1. lið. Á hinn bóginn má hækka sterka drykki og um leið selja mikið magn af hæfilega dýru öli og má þannig ná tekjum í ríkissjóð og að öllum líkindum er það ætlan flm.

En hvað verður þá um hið göfuga markmið í staflið 2, en þar segir: að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar? Vonandi tekst það. En halda hv. flm. að bjórkrár og ölmenning verði ánægjuauki og siðbætandi þáttur í lífi þjóðarinnar?

Herra forseti. Ég tel líkt og margir aðrir sem á undan hafa talað að greinargerð með frv. sé flausturslega unnin. Þar stangast hvert markmiðið á annars horn og verður lítt raunveruleikanum samkvæmt ef til framkvæmda kemur.

Miðað við núverandi ástand í framkvæmd áfengislaga hvað varðar sölu á áfengum bjór ætti að vera kappnóg að setja eina línu í markmið flm. með frv. og ég hef heyrt það á þeirra málflutningi að þeim líst ekki svo illa á það. En hún gæti verið svohljóðandi: „að jafna aðstöðu landsmanna til kaupa á áfengu öli“. Það er grunntónninn í þessum málflutningi.

Persónulega hef ég aldrei keypt áfengt öl á ferðalögum í útlöndum, því hér hafa menn verið að vitna um eigin notkun, eða við heimkomuna í Fríhöfninni í Keflavík og ég hef lítinn áhuga á öldrykkju, en undir það markmið að jafna aðstöðu landsmanna til ölkaupa get ég heils hugar tekið.

Það ófremdarástand, sem ríkt hefur á undanförnum árum og hefur verið margítrekað í umræðunum, að um helmingur landsmanna geti á löglegan hátt keypt áfengt öl og komið með inn í landið en á sama tíma er hinum helmingi landsmanna gert slíkt ókleift, þ.e. þeim sem ekki komast til útlanda það árið eða svo gott sem, er löngu orðið óþolandi og hæstv. Alþingi til lítils sóma.

Ef ég man rétt var það fyrir nokkrum árum að einn af broddborgurum þjóðarinnar lét með aðstoð fjölmiðla sverfa til stáls í Fríhöfninni í Keflavík, keypti sér áfengt öl og hugðist taka með sér inn í landið. Að sjálfsögðu tóku tollverðir ölið af viðkomandi svo sem lög buðu, en hann lét sér ekki segjast og höfðaði til réttar síns á við flugliða og sjómenn hvað varðaði innflutning á sterku öli. Vísaði hann á ákvæði í stjórnarskránni um að allir skuli jafnir fyrir lögunum. Yfirvöld beygðu sig fyrir þessum málflutningi og hefur bjórinnflutningur ferðamanna viðgengist síðan.

Herra forseti. Ég ítreka afstöðu mína í þessu máli. Ég tel að samræmi eigi að vera í áfengislöggjöfinni. Annaðhvort mega allir landsmenn, sem til þess hafa aldur, kaupa sömu tegundir áfengis, þar með talið áfengt öl, eða þá að þær gerðir áfengis sem eigi eru heimilar verði öllum landsmönnum bannvara.

En þá kemur að öðrum þætti þessa máls og hann er: Hvar á ákvarðanatakan að fara fram um það hvort landsmönnum verði heimiluð bruggun og kaup á áfengu öli? Er það hér á hv. Alþingi eða er það hjá landsmönnum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Í öllum kaupstöðum landsins þar sem ekki eru áfengisútsölustaðir ÁTVR fer fram af og til umræða meðal bæjarbúa um hvort æskja skuli slíks útsölustaðar eður ei. Ávallt hefur það verið mikið deilu- og hitamál í viðkomandi sveitarfélögum og sitt sýnst hverjum. En úrskurðar er ávallt leitað í allsherjaratkvæðagreiðslu á viðkomandi stað. Niðurstöður eru oftast í engu samræmi við áfengisneyslu og neysluvenjur kjósenda. Viðhorf manna til framkvæmdar á áfengislöggjöfinni skiptir þar oft meira máli en þeirra eigin neysluvenjur. Á sama hátt tel ég að mál þetta, bjórmálið, eigi að ákvarðast í þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnt og sveitarstjórnir, skv. lögum, fela bæjarbúum ákvarðanatöku í héraði á Alþingi að fela landsmönnum að ákvarða fyrir heildina.

Með leyfi forseta vil ég lesa stuttan kafla úr Morgunblaðinu frá sunnudeginum 26. október sl. á bls. 40, úr þingbréfi, en þar segir:

„Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki á hverjum degi hér á landi. Fyrir tæpum 80 árum, árið 1908, gengu Íslendingar til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem enn setur mark sitt á almenna umræðu í landinu. Þeir voru ekki á eitt sáttir þá frekar en fyrri daginn eða þann síðari. 4900 sögðu já, 3218 sögðu nei. Meiri hlutinn þá lýsti sig samþykkan aðflutningsbanni á áfengi sem kom til framkvæmda árið 1912. Eftir 1914 var síðan innflutningur, framleiðsla og sala áfengis lögbönnuð hér á landi. Þetta var síðan afnumið að undangenginni nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1933. 15 884 kjósendur vildu afnema bannið, 11 624 halda því. Áfengisbannið var afnumið með lögum árið 1935, þ.e. gagnvart öllum tegundum alkóhóls nema þeirri veikustu, bjórnum. Bjórbannið sem Íslendingar hafa þráttað um í marga áratugi er eftirhreytur frá áfengisbanninu 1912.“

Með því að skjóta þrætumáli þessu til úrskurðar landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu sýna hv. alþm. víðsýni og tryggja frekar sátt um niðurstöður en ella. Ég hvet hv. flm. til að taka inn í frv. ný ákvæði og breyta því á þann veg að landsmenn hafi síðasta orðið. Að fenginni niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu ætti eftirfarandi að gerast:

1. Verði hún jákvæð hafa allir landsmenn rétt til kaupa á áfengu öli hvar sem er.

2. Verði hún neikvæð falli allar heimildir úr gildi til innflutnings áfengs öls til landsins. Þá verði ekkert verið að tvínóna við þetta, málið er afgreitt.

Herra forseti. Jafn réttur þegnanna fyrir lögunum er grundvallarmannréttindi.