08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

1. mál, fjárlög 1954

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að hef ja mál mitt á því að þakka meiri hl. fjvn. fyrir þær breytingar, sem hann hefur flutt við tekjuhlið fjárlfrv. Breytingar þessar geta að sjálfsögðu engan veginn talizt leiðrétting á tekjuliðum fjárlfrv., til þess ganga þær allt of skammt, en hins vegar eru þær mikilsverð viðurkenning frá meiri hl. fjvn. um það efni, hvað gera hefði þurft til þess að leiðrétta fjárlfrv. að þessu leyti. Tel ég mjög mikilsvert, að þm. stjórnarflokkanna, jafnhandjárnaðir og þeir hafa reynzt hér í þingsölunum, skyldu þora að viðurkenna þetta atriði í sambandi við samningu fjárlfrv. og gefa þar með almenningi í skyn, svo að ekki verði um villzt, á hvern hátt vinnubrögðum hæstv. fjmrh. er háttað. — Fyrir þetta vildi ég sem sagt mega þakka meiri hl. fjvn.

Þegar hv. 3. landsk. þm. ræddi hér um fjárl. áðan, datt mér í hug kennari, sem er að leiðrétta heimaverkefni nemanda sins í bókfærslu. Mér datt í hug, að mikið mundi nú kennarinn gefa nemanda sínum lága einkunn fyrir það bókhaldsdæmi, sem hann hafði fyrir framan sig og var að leiðrétta. Og ég held, .að þessi hv. þm., 3. landsk., sem er gamalreyndur kennari, hafi hagað leiðréttingu sinni í samræmi við það, sem hann mundi gera, ef hann hefði verið kennari í þessu tilfelli og hæstv. fjmrh. nemandi hans. Hygg ég, að hans röksemdafærslur við breytingar og leiðréttingar á ýmsum liðum fjárl. hafi mótazt mjög af afstöðu kennarans til nemanda sins.

Við hv. 8. þm. Reykv. höfðum leyft okkur að flytja hér nokkrar brtt. við fjárl. á þskj. 264, og mun ég gera mjög stuttlega grein fyrir þeim, að því leyti sem hv. 8. þm. Reykv. hefur ekki þegar gert.

Við leggjum til í fyrsta lagi, að vörumagnstollur verði áætlaður 26 millj. kr. í stað 24 millj. kr. í fjárlfrv. Vörumagnstollurinn var orðinn 31. okt. s.l. 21 millj. kr. Í nóvember og desember 1952 varð vörumagnstollurinn tæpar 5 millj. kr., en þá ber að taka tillit til þess, að þá stóð verkfall yfir í langan tíma í fyrra og þess vegna voru hinar svo kölluðu jólavörur ekki afgreiddar nema að litlu leyti þá. Það er vitað, að vöruinnflutningur til landsins og tollafgreiðsla á vörum verður miklum mun meiri í nóvember og desember í ár en var í fyrra, og þess vegna mun vörumagnstollurinn verða mun meiri en 26 millj. kr. á þessu ári. Hins vegar vildum við ekki af ásettu ráði spenna þessa áætlun til hins ýtrasta og leggjum því aðeins til, að liðurinn hækki um 2 millj. kr., eða í 26 milljónir.

Í öðru lagi leggjum við til, að verðtollur hækki úr 110 millj,. kr. í 125 millj. kr. Verðtollur var orðinn rúmlega 101 millj. kr. 31. okt. s.l. Í nóvember og desember í fyrra nam verðtollur 21.3 millj. kr., og gildir þá enn sú sama athugasemd og ég gerði áðan, að þá stóð verkfall, og tollafgreiðsla á vörum í nóvember og desember nú verður mun meiri en þá tvo mánuði 1952, og þess vegna munu verðtollstekjur ríkissjóðs á árinu 1953 fara allverulega fram úr 125 millj. kr. Þrátt fyrir það leggjum við ekki til, að þessi liður verði hækkaður um meira en 15 millj. kr.

Í þriðja lagi leggjum við til, að ýmsar aukatekjur verði hækkaðar um 1 millj. kr. Inn á þessar aukatekjur munu vera færðar, ef ég man rétt, tekjur af sölu setuliðseigna, tekjur frá fjárhagsráði, sem verið hefur, og fleira þess háttar. Nú hefur hæstv. ríkisstj. tilkynnt með frv., að það sé hennar vilji og ætlun að leggja fjárhagsráð niður og spara kostnað við þá stofnun, þrátt fyrir það að ný stofnun verði sett í þess stað, án þess þó að rýra tekjur þeirrar stofnunar. Mun því hin nýja innflutningsskrifstofa ríkisins geta skilað meiri tekjum á næsta ári í ríkissjóð heldur en fjárhagsráð gerði, og sömuleiðis er vitað mál. að sala setuliðseigna hefur haft að undanförnu mun umfangsmeiri rekstur og meiri tekjur en hefur verið nokkur síðustu ár, þannig að það mun varlega áætlað að ætla þessar tekjur 1 millj. kr. hærri en í fjárlfrv. er gert ráð fyrir, og er það líka í samræmi við það, sem þær voru orðnar í október s.l.

Í fjórða lagi leggjum við til, að stimpilgjald hækki um 2 millj. kr., úr 9 millj. í 11 millj. kr. Stimpilgjöld hafa numið rúmlega 900 þús. kr. á mánuði, það sem af er þessu ári, og fara sívaxandi, svo að þessi áætlun mun algerlega fá staðizt, því að hér er aðeins gert ráð fyrir, að stimpilgjöldin verði 900 þús. kr. á mánuði hverjum. Það er því fyllilega í samræmi við það, sem verður á árinu 1953, og engin ástæða til að ætla, að þessar tekjur minnki á árinu 1954, nema síður sé.

Þá leggjum við í fimmta lagi til, að söluskattur hækki í 100 millj. kr. úr 91.5 millj. kr. Söluskattur var orðinn um 78 millj. kr. 31. okt. s.l., í nóvember og desember 1952 varð hann 19 millj. kr., en vegna verkfallsins var mun minni velta á þessu tímabili 1952 heldur en verður í ár, svo að söluskatturinn mun verða rúmlega 100 millj. kr. á þessu ári. Er því sýnilega ekki of í lagt að áætla hann 100 millj. kr. árið 1954.

Í sjötta lagi leggjum við til, að tekjuhlið reiknings áfengisverzlunarinnar verði hækkuð um rúmlega 4 millj. kr. Er það nákvæmlega í samræmi við það, sem tekjur áfengisverzlunarinnar eru nú þegar. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið hjá forstjóra áfengisverzlunarinnar, voru tekjur þeirrar stofnunar síðustu 2 mánuði ársins 1952 9 millj. kr., og þó var hún lokuð allan þann tíma, sem verkföllin stóðu í nóvember og desember. Í ár er hún hins vegar opin allan þennan tíma, og má gera ráð fyrir, að tekjur hennar þessa tvo síðustu mánuði ársins verði ekki innan við 15 millj. kr. Og forstjóri áfengisverzlunarinnar hefur látið í ljós það álit, að áfengissala á þessu ári verði meiri en nokkru sinni fyrr. Það hefur engin röksemd komið fram fyrir því, að það sé ástæða til að ætla, að áfengissalan minnki á næsta ári frá því, sem nú er, og þess vegna leggjum við til, að hún verði sett óbreytt árið 1954, svo sem er árið 1953, og teljum, að það sé hóflega í sakirnar farið.

Í sjöunda lagi leggjum við til, að tekjur tóbakseinkasölunnar hækki á sama hátt um rúmar 3 millj. kr. Um þann lið er það að segja, að þessar tekjur, sem við hér leggjum til að áætlaðar verði af tóbakseinkasölunni árið 1954, eru nú þegar í nóvemberlok komnar í ríkissjóð fyrir árið 1953 samkvæmt upplýsingum frá tóbakseinkasölunni. Þykir okkur þó rétt að áætla tekjurnar á árinu 1954 ekki meira en það, sem þær reyndust 11 mánuði ársins 1953, vegna þess að tóbakseinkasalan heldur því fram, og ekki ástæða til að vefengja, að sala fyrirtækisins í desembermánuði fari til að greiða útsvör og annan þess háttar kostnað.

þá leggjum við til, að á 13. gr. verði tekjur af flugvöllum, þ.e.a.s. tekjur af Keflavíkurflugvelli, hækkaðar um 1 millj. kr. Er það í samræmi við það ár, sem nú er að líða, því að í nóvemberlok þessa árs munu tekjur af Keflavíkurflugvelli vera orðnar rúmlega 5 millj. kr., og því virðist ekki of í lagt að áætla, að þær verði, eins og við leggjum hér til, 5.6 milljónir allt árið.

Samanlagt nema þessar hækkanir á tekjuáætlunum, seni við höfum borið fram, um 37 millj. króna.

Auk þess leggjum við til, að nokkrir útgjaldaliðir verði lækkaðir.

Er þá fyrst fyrir, að við leggjum til, að tvö af sendiráðunum á Norðurlöndum verði lögð niður; eitt sendiráð verði látið duga fyrir Norðurlöndin, en útgjöld þess þá hækkuð nokkuð frá því, sem nú er gert ráð fyrir í fjárlfrv., vegna þess að ef sendiráðin í Osló og Stokkhólmi yrðu lögð niður, mundi ferðakostnaður og annar kostnaður sendiráðsins í Kaupmannahöfn hækka lítils háttar. Þetta er sjálfsögð ráðstöfun, enda hafa hv. þm. Framsfl. stundum flutt tillögur um það að fækka sendiráðum, þó að þær hafi ekki náð fram að ganga. Það virðist lítil ástæða til þess fyrir jafnfátæka þjóð og Íslendingar eru, sem hefur þurft að biðja um gjafir svo að hundrað milljónum króna nemur á undanförnum árum, að halda uppi dýrum sendiráðum á Norðurlöndum til þess eins, að því er bezt verður séð, að sendiherrar geti búið þar í höllum, samið og flutt skálaræður við mismunandi þarfleg tækifæri og ort ljóð til þjóðhöfðingja. Virðist full ástæða til að ætla, að þessu mætti öðruvísi fyrir koma, enda þótt framsóknarmenn eigi í hlut.

Þá er 11. till. okkar um það, að lækkaður verði kostnaður til samninga við erlend ríki. Hér er aðeins um 100 þús. kr. lækkun að ræða og er í fullu samræmi við það, sem verið hefur samkvæmt ríkisreikningi síðustu ára. Til þessara samninga hafa ekki farið á árinu 1951 og 1952 nema tæpar 400 þús. kr. hvort árið um sig, og virðist því óþarfi að áætla þarna 100 þús. kr. hærri útgjöld fyrir ríkisstj. til að grípa til í lúxusferðalög eða eitthvað annað í því sambandi.

Einnig höfum við lagt til í 12. og 13. till. okkar, að þátttaka í alþjóðaráðstefnum á vegum utanrrn., svo og á annarra vegum, verði lækkuð um samtals 300 þús. kr., og teljum fulla ástæðu til, að Ísland eyði ekki meiri peningum í tildur- og prjálráðstefnur vitaþarflausar úti í heimi heldur en minnst verður með af komizt.

Væntum við þess, að hæstv. ríkisstj. fagni þessum brtt. og mælist til þess við þingflokka sína, að þeir fylgi þeim eftir.

Þá er hér um að ræða nokkra hækkunarliði á útgjöldum.

Það er í fyrsta lagi, að við leggjum til, að framlag til íþróttasjóðs verði hækkað úr 600 þús. kr. í 1250 þús. kr. Forstöðumenn íþróttamála hér á landi hafa sent hv. þm. mjög ýtarlega grg. og bréf um sín málefni, og kemur greinilega í ljós, að það minnsta, sem komizt verður af með vegna íþróttamálanna á næsta ári, er 1250 þús. kr., en þyrfti, ef vel væri, miklu hærri fjárhæð. Við höfum þó ekki séð ástæðu til þess að ganga lengra í þessum málum en að leggja það til, að bætt væri úr þessum brýnustu lágmarksþörfum íþróttamálanna, og sjáum ekki fyllilega, hvernig verður rökstutt að fresta því ár frá ári að greiða skuldir, sem hafa safnazt vegna framkvæmda íþróttamálanna.

16. till. okkar er aðeins orðalagsbreyting við fjárlfrv. Við leggjum til, að 15. gr. B., IX. liður, orðist svo: „Framlag til mótvirðissjóðs vegna tæknilegrar aðstoðar, að því tilskildu, að Iðnaðarmálastofnuninni verði falið að annast milligöngu um útvegun slíkrar aðstoðar.“ Hér hefur verið komið á fót afar þýðingarmikilli stofnun, sem kölluð er Iðnaðarmálastofnun Íslands. Hlutverk hennar á að vera að veifa tæknilega aðstoð vegna iðnaðarrekstrar og iðnaðarframleiðslu. Þessi stofnun hefur ráðið sérfræðinga í sína þjónustu til að veita þessa aðstoð, og m.a. hefur hæstv. viðskmrh. farið um það skilningsríkum orðum við opnun þessarar stofnunar, hver þörf væri á henni í þessu þjóðfélagi. Vil ég ekki draga neitt úr því, fremur bæta við, því að íslenzkum atvinnuvegum er ef til vill meiri þörf á tæknilegri aðstoð heldur en nokkru öðru. En þá er einnig mjög eðlilegt, að ef leitað er út fyrir landsteinana um tæknilega aðstoð og borgað fé fyrir, þá sé þessari stofnun falið að annast það og ákveða, hvers konar aðstoð verði fengin, hvað það sé, sem okkar atvinnuvegum sé brýnast að fá í þessu etni, og að Iðnaðarmálastofnuninni verði því heimilað að ákveða, á hvern hátt því fé skuli varið, sem til útvegunar þessarar sérfræðilegu aðstoðar er varið á fjárl.

Náskyld þessari till. er næsta till. okkar við 16. gr. fjárl., C. 2., að framlag til Iðnaðarmálastofnunarinnar verði hækkað úr 350 þús. kr. í 800 þús. kr. Þeir menn, sem staðið hafa fyrir því að koma þessari iðnaðarmálastofnun á fót, hafa gert ríkisstj. grein fyrir því, hvert fé þeir þyrftu minnst, til þess að hún gæti starfað. Er þar um að ræða 800 þús. kr., og sjáum við ekki, að hjá því verði komizt að veita þetta fé úr ríkissjóði, enda áreiðanlegt, að ýmsu fé úr ríkissjóði er verr varið en því, sem til þessarar stofnunar færi. Við teljum algerlega vanhugsað að veita stofnuninni 350 þús. kr., ef hún á annað borð þarf 800 þús. kr., sem enginn hefur vefengt. Með þessu framlagi, þessum 350 þús. kr., mundi hún lítið sem ekkert gagn vinna, hún mundi vera að meira og minna leyti algerlega óstarfhæf, og þá mundu þessar 350 þús. kr. fara í lítið sem ekkert. Ef henni hins vegar væri veitt það fé, sem hún þarf til að geta starfað á sem fullkomnastan hátt og veitt þá aðstoð, sem atvinnuvegirnir þurfa á að halda og munu biðja hana um, þá er að öllu leyti skynsamlegast að verða við þeim óskum. Við höfum af því mjög leiðinlega og dýrkeypta reynslu hér á landi, að það er verið að káka við ýmsa hluti, enginn hlutur gerður vel, en byrjað á mörgu, sem er nauðsynlegt að byrja á og væri æskilegt að leysa af hendi, en í framkvæmdinni hefur það verið þannig, að fé hefur verið varið til margra ólíkra hluta, í flestöllum tilfeilum of lítið, þannig að lítið sem ekkert hefur fengizt fyrir þetta fé, en það farið meira og minna í súginn. Það er óefað, að það væri miklu skynsamlegra fyrir okkur að gera fáa hluti og gera þá vel heldur en að byrja á mörgu og gera allt illa.

Um aðra liði í till. okkar hefur hv. 8. þm. Reykv. fjallað nokkuð, og sé ég ekki ástæðu til að bæta miklu við um þau atriði. Ég vil þó aðeins geta þess í sambandi við þá till. okkar að veita væntanlegri veðdeild Iðnaðarhanka Íslands 7 millj. kr. óafturkræft framlag til útrýmingar braggaíbúða og annarra heilsuspillandi íbúða, að burtséð frá því sjónarmiði, að hér er um mjög alvarlegt ástand að ræða í húsnæðismálunum, þá eru það og rök í þessu máli, að iðnaðarmenn hafa mjög mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við húsabyggingar. Hér er bankastarfsemi hagað á þá lund, að bankarnir veita mjög lítið eða ekkert fé úr veðdeildum sínum til húsabygginga. Alls staðar annars staðar telja bankar sér nauðsynlegt sjálfum sér til tryggingar að festa um eða yfir helming af útlánsfé sinn einmitt í fasteignum. Ef iðnaðarmenn ættu aðgang að lánsfé í bönkum, gætu þeir byggt á hagkvæman hátt og í stórum stíl ódýrt húsnæði, notað ýmislegt, sem er hagkvæmt í fjöldaframleiðslu, og gert íbúðarhúsnæði á annan hátt ódýrara, jafnframt því sem einstaklingum mundi að sjálfsögðu verða auðveldara um að kaupa slíkt húsnæði, ef þegar hefðu fengizt lán til þess úr veðdeild einhvers banka.

Eitt atriði er það í fjárl., sem ég vildi aðeins mega spyrjast fyrir um. Um það höfum við ekki flutt till. hér, en það er, að í fjárl. er veitt 1 millj. kr. til ráðstöfunar vegna ófriðarhættu. Mér þætti fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvernig þessari milljón hefur verið varið, því að hún hefur verið greidd út af ríkisreikningi a.m.k. á árinu 1952. Við höfum ekki talið ástæðu til að flytja till. um að fella þetta niður, fyrr en þá að fyrir lægju upplýsingar um það, á hvern hátt þessari milljón hefur verið varið. Ef lítið eða ekkert skynsamlegt hefði nú verið gert við hana, þannig að féð mundi koma að litlu haldi, ef til ófriðar kynni að koma, væri sannarlega ástæða til að spara þessa milljón og fella hana niður, en ég vona, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að gefa við því svör, hvernig þessari milljón hefur verið varið.

Ég vil svo loks taka það fram, að ég áskil mér rétt til að fylgja ýmsum brtt., sem komið hafa fram við fjárlfrv. frá öðrum þm.