28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. á þskj. 267, hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv., og hefur reyndar þríklofnað, eins og önnur þskj. bera með sér. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., en vegna þess að einn úr okkar hópi, sem að því nál. stöndum, gerði ráð fyrir, að hann mundi e.t.v. flytja brtt. við frv., settum við þann fyrirvara í okkar nál., að við áskildum okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt. Um aðrar brtt. var ekki getið á fundi sjútvn., en ég sé, að hv. 2. minni hl. hefur flutt tvær minni háttar brtt. á þskj. 270. Að sjálfsögðu hefur sjútvn. ekki um þær fjallað, þar sem þeirra var ekki getið á fundi nefndarinnar.

Það er mikið búið að ræða þetta mál. bæði í hv. Ed. og við 1. umr. í þessari d., og ég sé ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum, en ég vil sérstaklega geta tveggja erinda, sem n. bárust, frá Sjómannasambandi Íslands og frá stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og tekin voru fyrir til umr. í sjútvn.

Erindi þessi fjalla bæði um mál. sem getið hefur verið í umr., en það er sú ósk sjómannasamtakanna, að þeim verði ætlaður jafnhár hlutur af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum og ætlaður er Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ég tel ekki ástæðu til að lesa þessi erindi orði til orðs. Þetta er kjarni málsins. En ég vil af sérstöku tilefni geta þess, að bréf þessi bera með sér, að þetta mál hafa Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið flutt við hæstv. sjútvmrh. löngu fyrir áramót, eða Sjómannasambandið þann 1. nóv. s.l. og Farmanna og fiskimannasambandið þann 9. des. s.l., eða löngu áður en það kom til að ákveða fiskverðið fyrir 1966 á þann hátt, sem gert var með úrskurði yfirnefndar verðlagsráðsins. Sjómannasamtökin hafa, þrátt fyrir það að þau komu ekki þessu málefni sínu fram hjá yfirnefndinni, veitt þeirri lausn á fiskverðinu fullan stuðning, sem felst í því frv., sem hér er til umr. Þetta var staðfest af formanni Sjómannasambandsins á sameiginlegum fundi beggja sjútvn., þar sem mættur var oddamaður yfirnefndar og fulltrúar frá fiskseljendum og fiskkaupendum. Ég tel þess vegna, að sjómannasamtökin bindi það alls ekki því skilyrði, að þau fái þessu erindi sínu framgengt, að þau fallizt á ákvörðunina um fiskverðið. Hitt er svo annað mál og er ekki óeðlilegt af þeirra hálfu, að þau geri enn eina tilraun til þess að koma þessu áhugamáli sínu fram í sambandi við frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og fram kemur í grg. með frv., er sú meginbreyting gerð á útflutningsgjaldinu, að í veigamiklum atriðum er því breytt úr verðmætisgjaldi í magngjald, og er þetta gert samkv: eindregnum óskum fiskframleiðenda sjálfra, eða, eins og segir í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum árum hafa útflytjendur freðfisks, saltfisks og skreiðar hvað eftir annað óskað þess, að útflutningsgjaldi á þessum vörum yrði breytt í magngjald. Hafa þeir réttilega bent á, að verðmætisgjald legðist með miklum þunga á þær vörur, sem mest eru unnar og verðmætastar á hverja þungaeiningu. Verðmætisgjaldið dragi því beinlínis úr áhuga útflytjenda á aukinni vinnslu, t.d. á framleiðslu fisks í neytendaumbúðum. Þar sem tekjur af útflutningsgjaldi ganga svo til eingöngu til greiðslu útgjalda vegna fiskveiðiflotans, er eðlilegast, að útflutningsgjaldið leggist á verðmæti hráefnis, en ekki á verðmæti fullunninnar vöru. Það er hins vegar ekki framkvæmanlegt að miða gjaldið við verðmæti hráefnis, og er því í staðinn í þessu frv. farin sú leið, að gjald sé lagt á hverja magneiningu hinnar útfluttu vöru. Verður gjaldið þeim mun lægra í hlutfalli við verðmæti, sem varan er verðmætari, en því hærri í hlutfalli við verðmæti, sem varan er verðminni. Auðséð er, að með þessu móti mundi gjald á vörum, sem eru mjög ódýrar miðað við þungaeiningu, geta orðið of hátt. Gildir þetta t.d. um fiskúrgang og heilfrystan fisk. Er því í þessu frv. lagt til, að þessar vörur, ásamt söltuðum þunnildum og söltuðum hrognum, greiði áfram hið sama verðmætisgjald og áður, 4.2%. Enn fremur er í frv. almennt ákvæði þess efnis, að engin afurð skuli greiða hærra gjald af magni en hún hefur áður greitt af verðmæti.“

Í þessum orðum í grg. með frv. er því lýst, hvað er í raun og veru meginkjarni þessa máls, og á þeim sameiginlega fundi sjútvn. beggja deilda, sem ég gat um áðan, staðfestu þeir menn, sem þar voru fulltrúar fyrir fiskseljendur, að þessi breyting væri gerð sérstaklega samkv. þeirra óskum. Hitt er svo annað mál, að það hefur ekki reynzt að öllu leyti unnt að framkvæma hugmyndina um magngjaldið eins og gert er ráð fyrir í frv., en þeir fulltrúar fiskkaupenda og fiskseljenda, sem mættir voru á margnefndum fundi, staðfestu, að þau frávik, sem gerð hefðu verið frá þessu, væru gerð með fullri vitund og samþykki þeirra.

Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli manna á þessari meginbreytingu á útflutningsgjaldinu vegna þess, að það hefur oft verið haft á orði, að við Íslendingar ættum að leggja meiri áherzlu á það að fullvinna vöru okkar til útflutnings og gera hana þannig verðmeiri, en með þessari breytingu er slík þróun einmitt örvuð. Það hefur verið hér mikið talað um það, að sú tilfærsla, sem samkv. frv. verður á útflutningsgjaldinu, þ.e. að um 38 millj. kr. verði fluttar frá síldveiðunum og yfir til annarra greina fiskveiðanna, væri þung skattlagning. Á þessu hefur verið hamrað æ ofan í æ, og nú seinast sé ég, að þessu sama er haldið fram hér í nál. hv. . minni hl. Ég vil aðeins í þessu sambandi benda á, að það er alls ekki réttmætt að kalla útflutningsgjaldið skattlagningu í venjulegri merkingu þess orðs. Eins og fram kemur í 3. gr. frv., er þessu gjaldi öllu varið til sérstakra þarfa sjá arútvegsins. Það fyrirkomulag að taka vátryggingargjöld fiskiskipa, framlag til fiskveiðasjóðs, til fiskimálasjóðs, til byggingar rannsóknastofnunar sjávarútvegsins, til byggingar haf- og fiskirannsóknaskips og framlag til Landssambands ísl. útvegsmanna er á haft samkv. ósk útvegsmanna sjálfra og þeirra samtaka. Þetta er ekki skattur, sem fer í almenna eyðslu hjá ríkinu, heldur er gjaldinu varið til hinna sérstöku þarfa, sem þarna eru taldar upp og allar snerta útveginn sjálfan. Sérstaklega mætti benda á það, að einmitt fiskveiðasjóður hefur hvað mest lánað til mikillar uppbyggingar á skipastólnum sem hefur gert það að verkum, að við eigu núna stór og vel útbúin fiskiskip, sem eru fær um að sækja síldina mörg hundruð mílur til hafs eða jafnvel til stranda annarra landa. Þess vegna er það mín skoðun, að það sé ekki nein goðgá, þótt síldarútgerðin sé nú, þegar hún gengur að ýmsu leyti vel, látin bera meira af gjaldinu en áður. Þó veit ég, að nokkrir minni bátar, sem áður voru gerðir út á síldveiði, eiga í erfiðleikum, en almennt má segja, að sá floti, sem nú er til þess hæfur að stunda síldveiðar, hafi góða afkomu, og þegar þannig er ástatt, þá er það frá mínum bæjardyrum séð ekki nein goðgá, þótt hann sé látinn standa undir þessu gjaldi í ríkara mæli en áður, einkum og sé í lagi þar sem þetta gjald rennur allt saman til sjávarútvegsins í heild. Það er mín skoðun, að í sjávarútveginum, þar sem á ýmsu getur gengið frá ári til árs, verði einmitt þær greinar, sem í það og það skiptið bera sig ekki að öllu leyti, að fá stuðning frá þeim greinum, sem það gera. Sjávarútvegurinn er áhættusöm starfsemi, og það kemur þar margt til greina, en í langflestum tilfellum eru það sömu aðilar, sem hafa hagsmuna að gæta bæði í sjálfri útgerðinni og í fiskverkuninni, þegar á allt er litið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara nm þetta fleiri orðum, nema tilefni gefist til. En út af erindi Sjómannasambandsins og stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands vil ég segja það sem mína skoðun, eins og ég gerði í sjútvn., að ég tel, að það sé ekki í sambandi við þetta frv. hægt að verða við því erindi. Frv. er hnitmiðað við það samkomulag, sem gert var í sambandi við fiskverðshækkunina, og ef eitthvað ætti að líta nánar á þetta erindi, yrði það að ske seinna.

Það hefur verið talað um það, að fiskverðshækkunin væri of lítil, og það má auðvitað lengi segja, að útgerðin fái ekki nægilegt í sinn hlut. Ég vil þó að endingu á það benda, að síðan verðlagsráð sjávarútvegsins tók til starfa, er hér um að ræða mestu hækkun á fiskverði á milli ára, sem orðið hefur. Árið 1963 var hækkunin samkv. útreikningum verðlagsráðs 9 1/2%, 1964 var hún 6%, 1965 var hún 7%, en nú er á þessu ári gert ráð fyrir 17% hækkun. Þessar prósentutölur verða að vísu lítið eitt lægri öll árin, ef miðað er við raunverulega skiptingu á afla, samkv. útreikningi Efnahagsstofnunarinnar, en það munar auðvitað sáralitlu. Niðurstaðan er sú sama. Prósentuhækkunin er meiri á milli ára núna en hún hefur verið nokkurt undanfarinna ára, síðan verðlagsráðið tók til starfa. Eftir reikningi Efnahagsstofnunarinnar verður þetta fyrir 1963 8.3%, fyrir 1964 8.8%, fyrir 1965 5.9% og fyrir 1966 16.9%, ef reiknað er með raunverulegri aflaskiptingu 1965.

Ég hef þetta svo ekki lengra, herra forseti, en leyfi mér fyrir hönd meiri hl. sjútvn. að mæla með því, að frv. verði samþ.