11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

1. mál, fjárlög 1968

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 129 brtt. ásamt hv. 2. landsk. þm. Till. fjallar um það, að fjárframlög ríkisins til borgarsjúkrahúss Reykjavíkur verði aukin um 10 millj. Í fjárlagafrv., eins og það var lagt fyrir í upphafi, var gert ráð fyrir 10 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni, en sú fjárveiting hefur nú verið hækkuð í meðförum fjvn. og með till. meiri hl. hennar upp í 18 millj.. en við leggjum sem sé til, að upphæðin verði ákveðin 28 millj. Hér er þó engan veginn um að ræða eina af þeim till., sem stundum eru kallaðar yfirboðstill., heldur fjallar þessi till. aðeins um fjárframlög, sem ríkissjóður er skuldbundinn til að inna af höndum. Ríkissjóður á lögum samkv. að greiða helming af kostnaði við borgarsjúkrahúsið, en því miður hefur orðið mikill misbrestur á því, að ríkissjóður hafi staðið við þá skyldu sína. Það hafa safnazt upp mjög miklar skuldir sum árin og það hefur átt ríkan þátt í því, að byggingarsaga þessa húss hefur orðið svo fjarskalega raunaleg. Það hefur sem kunnugt er verið í byggingu nú um nærri 20 ára skeið og það fjárhagstjón, sem hefur hlotizt af slíkri ráðsmennsku, er að sjálfsögðu mjög mikið. Í árslok 1966 var svo ástatt um samskipti ríkissjóðs og borgarsjúkrahússins, að ríkissjóður skuldaði 63 millj. kr. Í þetta var höggvið nokkuð mikið með lántöku, sem nam um 40 millj. kr., og ríkissjóður hefur tekið að sér að greiða það lán. Eftir eru engu að síður af þessari skuld rúmar 20 millj. kr. Á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem verið er að fjalla um um þessar mundir, er gert ráð fyrir, að lagðar verði til borgarsjúkrahússins 45 millj. kr. á næsta ári. Ríkissjóður ætti að leggja fram helming þeirrar upphæðar eða 221/2 millj. Það er hærri upphæð heldur en sú upphæð, sem meiri hl. fjvn. gerir till. um. Þess er vænzt, að þessi upphæð fyrir næsta ár, 45 millj., verði lokagreiðsla í þessum áfanga byggingarframkvæmdanna og sé litið svo á, eru þær greiðslur, sem ríkissjóður verður að inna þarna af hendi, annars vegar þessar 22 1/2 millj. og hins vegar skuldin upp á rúmar 20 millj., þannig að í rauninni hefði átt að flytja hér till. um, að þetta framlag yrði yfir 40 millj. Þess vegna er þessi till. okkar tveggja Reykjavíkurþm. engan veginn neitt yfirboð, eins og ég sagði áðan. Hún er í rauninni undir því, sem ætti að vera skylda okkar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta mál. Það ætti að skýra sig sjálft eftir þau orð, sem ég hef sagt hér. Hins vegar langaði mig, fyrst ég er kominn hér upp í ræðustól, að víkja að öðru máli, sem tengt er fjárl., enda þótt ég hafi ekki flutt neina till. um það enn sem komið er. Fyrir nokkrum dögum spurði ég hæstv. menntmrh. að því, hverjar framkvæmdir hefðu orðið á ákvörðun Alþingis eða þál. Alþingis frá 1957 um sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns og byggingu nýs bókasafnshúss í því sambandi. Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að framkvæmdir hefðu engar orðið, og hann bar því við m.a., að ekki hefði verið veitt neitt fé á fjárl. í þessu skyni. Þetta er röksemd, sem óhjákvæmilegt er að taka alvarlega. Ef ekki er veitt neitt fé til slíkra framkvæmda, er ekki hægt að ætlast til þess, að sá ráðh. sem á að fjalla um þetta mál, geti gert nokkuð, sem heitið getur. Því hefði ég haft býsna mikinn áhuga á því að ræða þetta mál sérstaklega nú við hæstv. menntmrh., en hann er því miður ekki staddur hér, þó að vel færi á því, að ráðh. fylgdust með þeim takmarkaða tillöguflutningi, sem þm. eru með við fjárlög, svo að þeir gætu rætt við okkur um vandamál hver á sínu sviði. En það, sem mig hefði langað til að spyrja hæstv. menntmrh. um og sem hæstv. fjmrh. mun eflaust geta aðstoðað mig við að fjalla um, er þetta: Ef fjárlög verða enn einu sinni afgreidd án þess að nokkur upphæð sé þar ætluð til sameiningar safnanna, er það þá frambærileg röksemd áfram fyrir hæstv. ráðh., að hann geti ekkert gert vegna þess að fjárveitingu skorti? Mér er spurn: Er yfirleitt hægt að koma inn í fjárlög nokkurri umtalsverðri upphæð nema hæstv. ríkisstj. hafi forystu um það? Eru ekki vinnubrögðin hér á Alþ. orðin slík, að ef þm. flytur brtt., er það talið sjálfsagt að fella hana með flokksfyrirmælum, jafnvel þótt sakir kunni að standa svo, að meiri hl. sé á þingi fyrir efni till. Mér finnst, að við séum þarna í dálitlum vanda staddir, vegna þess að ég þykist vita það, að m.a. hæstv. fjmrh. viðurkenni, að hér sé um stórfellt nauðsynjamál að ræða.

Mér þykir raunar rétt að segja nokkur frekari orð um þetta mál í tilefni af ræðu, sem hæstv. menntmrh. flutti hér um daginn, vegna þess að ég vildi leiðrétta nokkrar missagnir, sem þar komu fram, fyrir þeim hv. þm., sem kunna að hafa hlustað á þá ræðu og e.t.v. tekið mark á staðhæfingum, sem ekki standast. Sumar staðhæfingar hæstv. ráðh. hafa raunar verið leiðréttar nú þegar í bréfi, sem hv. alþm, hefur borizt frá Finnboga Guðmundssyni landsbókaverði og þarf ég ekki að ítreka þær röksemdir, sem þar voru fluttar á mjög eftirminnilegan hátt. Hins vegar sagði hæstv. ráðh. í svari sínu sem eina röksemd fyrir því, að ekki hefði verið hægt að aðhafast neitt, að sótt hefði verið um lóð undir safnahús fyrir 10 árum, en ekkert svar væri komið enn. Þessi frásögn hæstv. ráðh. er ekki öldungis rétt.

Svo sem kunnugt er, hefur allstórt svæði í nágrenni háskólans verið tekið frá sem eins konar athafnasvæði háskólans. Það hefur ævinlega verið um það talað, að nýtt bókasafnshús risi á þessu svæði, og mér er fullkunnugt um það, að það er ekki nokkur andstaða gegn því, að húsið rísi á þessum stað, heldur fullur skilningur. Ástæðan til þess, að ekki hefur verið hægt að velja húsinu endanlegan stað, þótt vitað sé, að það verði á þessu svæði, er sú, að til þess að hægt sé að ákveða, hvar húsið skuli rísa, þarf að liggja fyrir vitneskja um það, hvað húsið verði stórt, þ. á m. hvað það verði hátt, því að staðarvalið fer eftir þeim ákvörðunum. Hér er því aðeins um að ræða tvær hliðar á sama málinu. Þetta tvennt er tengt saman og það er ekki í samræmi við staðreyndir að reyna að réttlæta athafnaleysi á þessu sviði með því að lóð hafi ekki fengizt.

Raunar urðu mér það talsverð vonbrigði, að hæstv. ráðh. reyndi í síðara svari sínu að láta líta svo út, sem vandi safnanna væri ekki eins mikill og margir vildu vera láta. Hann talaði mikið um gagnsemi ýmissa fyrirkomulagsatriða á söfnunum sjálfum. M.a. minntist hann á, að stálskápar hefðu verið teknir í notkun í þjóðskjalasafninu og með þeim afleiðingum, að rúmið nýttist miklum mun hefur en í hinum gömlu hillum. Tók hæstv. ráðh. svo mikið upp í sig, að hann sagði, að notkun slíkra stálskápa jafngilti því, að sjálft húsið væri stækkað til mikilla muna. En þessar bjartsýnu lýsingar hæstv. ráðh. eru ekki í samræmi við staðreyndir. Áður en stálskápar þessir voru teknir í notkun, hafði húsnæði þjóðskjalasafnsins raunar verið minnkað. Ein geymslan hafði verið tekin af því undir viðgerðarstofu, sem er að sjálfsögðu hin þarflegasta framkvæmd og raunar lífsnauðsynleg, bæði fyrir þjóðskjalasafnið og landsbókasafnið. En það var þessi minnkun á geymslurými þjóðskjalasafnsins, sem var unnin upp með því að setja upp stálskápa á tvær neðstu hæðirnar. Stálskáparnir hafa aðeins tryggt þjóðskjalasafninu óbreytt geymslurými, en öldungis enga stækkun. Óvíst er, hvort unnt er að fjölga stálskápunum nokkuð sem heitir frá því, sem nú er, því að vafasamt er talið, að burðarþol gólfanna á efri hæðum safnsins þoli þá þyngdaraukningu, sem skáparnir valda. Á það ber einnig að líta, að geymslurými skápanna nýtist bezt, þegar um geymslu skjala af sömu stærð er að ræða. Hins vegar verður munurinn á geymslurými þeirra og bókahillum, sem verið hafa í safninu frá upphafi, miklu minni, þegar um misstórar bækur og skjalaböggla er að ræða. Lýsingar hæstv. ráðh. á stálskápum þessum sem einhverju töfrabragði eru því miður ekki í samræmi við veruleikann.

Fyrst ég er tekinn að minnast á þjóðskjalasafnið, er ekki úr vegi að ræða lítillega um aðstöðu þess almennt, því að um það hefur minna verið rætt og ritað opinberlega en um vanda landsbókasafns og háskólabókasafns.

Samkv. reglugerð um Þjóðskjalasafn Íslands frá 3. nóv. 1915 eru taldir upp 20 embættahópar eða embætti, sem eiga að skila skjölum sínum til Þjóðskjalasafns Íslands, eftir að þau eru orðin 20 ára og eldri. Skjalaflokkum safnsins má skipta í tvo aðalflokka. Annars vegar eru þau söfn, sem kalla má lokuð. Það eru skjalasöfn embætta, sem nú eru ekki til lengur, svo sem Alþingis hins forna, stiftamtmanns, landfógeta, rentukammers o.s.frv. Hins vegar eru hin opnu söfn eða söfn stofnana og embætta, sem enn eru við lýði, svo sem Alþingis, biskups og Hæstaréttar að ógleymdum kirkjubókunum, sem draga til sín ættfræðinga eins og segull stál. Það vantar mikið á, að þjóðskjalasafnið hafi fengið í hendur öll þau skjöl, sem þar ættu að vera geymd, ef farið hefði verið eftir fyrirmælum reglugerðarinnar frá 1915. Til þess liggja ýmsar ástæður. Eftir lát dr. Jóns Þorkelssonar hefur ekki verið gerð gangskör að því að innheimta skjalasöfnin frá hinum ýmsu embættum, sem reglugerðin mælir fyrir um, að skuli afhenda skjöl sín eftir hinn tilskilda tíma eða 20 ár. Þannig vantar til að mynda á þjóðskjalasafnið skjöl hins háa Alingis frá því fyrir síðustu aldamót. Þrátt fyrir það, að ekki hefur verið innheimt svo sem skyldi síðan dr. Jón Forna leið, er geymslurými þjóðskjalasafnsins gersamlega þrotið. Ýmis embætti hafa sent því skjöl, þegar út af flóði í geymslunum hjá þeim. Og frá einstöku embættum eru komin skjöl á safnið, sem ekki hafa náð þeim aldri, sem tilskilinn er í reglugerð, og má þar tilnefna hinar merku heimildir um íslenzka siðgæðissögu 20. aldar, en það eru framtöl síðustu ára, svo og skjöl einstakra ráðuneyta og endurskoðunar ríkisins.

Hin embættin eru þó miklu fleiri, sem liggja með skjöl fleiri áratuga. Þannig er málum háttað um meiri hl. sýsluembættanna. Sum hafa engu skilað eftir síðustu aldamót, en það eru að vísu minni sýslurnar. Þá eru enn stofnanir, sem engu hafa skilað. Má þar til nefna bankana og er ekki neitt smáræði, sem þeir hafa af skjölum í sínum fórum. Þess er skylt að geta, að Landsbankinn hefur sýnt skjalasafni sínu sérstaka og mjög lofsverða umhyggju, svo að af því mættu aðrar stofnanir og þjóðskjalasafnið sjálft margt læra. Um skjalasöfn hinna bankanna er minna sinnt. Þess má geta, að í Útvegsbankanum eru t.d. skjöl Íslandsbanka, sem ekki munu þykja ómerkar heimildir, þegar hafizt verður handa um ritun á sögu samtímans á n. k. ári, eins og hv. Alþingi hefur ákveðið. Þá má ekki undan fella að geta skólanna, sem eru ríkisstofnanir. Þjóðskjalasafnið hefur einungis skjöl frá einum skóla í fórum sínum, það er Lærði skólinn. Frá öðrum skólum hefur ekkert komið og er ekki annars að vænta en t.a.m. Háskóli Íslands gæti orðið nokkuð frekur á garða, þegar hann kæmi með sitt hafurtask. Sama sagan er varðandi sjúkrahús, sem ríkið rekur, og Tryggingastofnun ríkisins og ótal nefndir og ráð, sem ríkið hefur látið njóta sömu vaxtarskilyrða og gorkúlur hafa á haugi á góðu sumri. Það má enn nefna sendiráð og ræðismannsskrifstofur vítt um heim og stofnanir eins og ríkisútvarpið og þjóðleikhúsið. Þaðan er ekki komið eitt blað.

Ekki er vitað, að nokkur rannsókn hafi verið gerð á því, hve mikið húsrými vantar til að hýsa öll þau skjalasöfn, sem eiga heima í safninu samkv. reglugerð þess. Og fyrir utan skjalasafn hins opinbera eru mörg söfn, sem á sama hátt ættu að fara þangað. Má þar nefna ýmis mikilvæg atvinnufyrirtæki, svo sem frystihúsin, Samband ísl. samvinnufélaga, stjórnmálaflokkana o.s.frv. En til marks um ástandið hvað geymslurými snertir, skal ég geta þess, að þjóðskjalasafnið hefur nú geymslurými, sem nemur alls 2732 hillumetrum. Þeir menn, sem gerst þekkja ástandið, telja hins vegar, að ekki mundi veita af 15–25 þús. hillumetrum, sem sé allt að því tífalt meira geymslurými en nú er tiltækt, ef starfsskilyrðin ættu að vera til einhverrar frambúðar. Hér er því um algert neyðarástand að ræða og af því getur hlotizt mikið tjón. Mér er kunnugt um ýmis skjöl, sem ekki eru komin á safnið, en ættu að vera þar og eru nú að grotna niður í allsendis ófullnægjandi geymslum.

Hér hef ég minnzt á geymslurými þjóðskjalasafnsins og oft er fyrst og fremst rætt um landsbókasafn og háskólasafn á sömu forsendum, sem geymslustofnanir, m.a. þegar talað er um að hagnýta kjallara undir Norræna húsinu eða Háskólabíói undir bækur. En söfnin þurfa einnig að tryggja mönnum góð starfsskilyrði, en öllum ætti að vera kunnugt, hversu frámunalega léleg sú aðstaða er um þessar mundir.

Ég vek athygli á þessu vandamáli, enda þótt ég flytji að svo stöddu enga till. um það, vegna þess að ég geri mér vonir um, að ég þurfi ekki að flytja neina till. Hér er ekki um að ræða neitt flokksmál. Ég er ekki að vekja máls á þessu vegna þess að ég er hér fulltrúi Alþb. Ég er ekki að gagnrýna framtaksleysi á þeim forsendum, að ráðh. séu fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. Á þessu máli er skilningur í öllum flokkum og vafalaust því miður einnig skilningsleysi. En ég hef ástæðu til að ætla, að a.m.k. sumir ráðh. hljóti að gera sér ljóst, að nú má ekki draga framkvæmdir lengur. Enda þótt fyrsta fjárveiting væri ákveðin nú, mundi þess enn langt að bíða, að söfnin gætu flutt inn í ný og nútímaleg húsakynni. Ég vil aðeins, eins og ég hef áður sagt, minna hæstv. fjmrh. á þetta mál og vænti þess, að hann hugsi þannig um það, að við sjáum merki þess, þegar fjárlagafrv. kemur til 3. umr.