19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

1. mál, fjárlög 1968

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að standa upp til að mæla fyrir till. minni hér í kvöld. Hún er ákaflega ljós, gerir ráð fyrir að fella niður fyrirhugað framlag til svonefndrar Hallgrímskirkju, krónur 720.000.-. Nú hefur verið bent á, að ég gerði mig sekan um að fara nokkuð gegn þingvenju að vilja spara á fjárl., og ég er þakklátur flokksbróður mínum, hv. 3. þm. Austf., fyrir að reyna að koma mér úr þeirri villu, eftir því sem kraftar hans stóðu til, með því að bera fram tillögu um notkun þess fjár, sem þannig sparaðist, til að reisa „höfuðkirkju“ á Egilsstöðum. En hans villa í þessu sambandi er eiginlega nærri því enn þá alvarlegri heldur en þessi sparsemdarvilla mín, því að hann gerði sér ekki ljósa eiginleika „höfuðkirkna“ í þessu landi. Þetta er nýtt hugtak, sem er að komast inn í kirkjusöguna og er aðaleinkenni þessara kirkna það, að forðast ber að hafa þær nærri almannavegi. Þær eru settar sem fjærst þéttri mannabyggð, en í stað þess byggð kringum þær skrauthýsi og allt fegrað og gert sem prýðilegast eins og dæmin sanna um höfuðkirkju Suðurlands.

Þess vegna átti þm. að sjálfsögðu að leggja til, að þessi „höfuðkirkja“ væri bundin þeim sögulega stað, sem tengdastur er kristninni á Austurlandi, Þvottá. Þangað gætu menn svo farið í pílagrímsferðir til að þvo af sér syndina án þess að eiga á hættu að vera truflaðir af of mörgum áhorfendum í því tómthúsi, sem þessi kirkja væntanlega yrði.

Ég á ekkert sökótt við þann góða söfnuð, sem býr á Skólavörðuholtinu hér í Reykjavík, sem með mér ókunnum rétti kennir sig við Hallgrím Pétursson og þykist hafa meiri rétt til þess en aðrir menn. Þetta var nú bara kallað fólkið á Skólavörðuholtinu, þegar ég var að alast þar upp. En nú hafa þeir ákveðið að byggja mikla turnstrýtu í stað kirkju nálægt þeim stað, þar sem ég lék mér í bernsku á Steinkudys. Þetta er þeim út af fyrir sig frjálst líka, ef þeir væru ekki að eyða fjármunum mínum og annarra, og jafnvel hefði ég látið þetta afskiptalaust, ef þeir væru ekki að eyðileggja útsýnið til höfuðborgarinnar úr miklum hluta af mínu kjördæmi. Og það er vegna þess að það er slík augnraun að sjá turnbáknið, bæði af Reykjanesi og Kjalarnesi og úr Mosfellssveit, — maður getur eiginlega hvergi farið í þessum ágætu sveitum, án þess að eiga á hættu að reka augun í þetta, — að ég vildi losa Alþ. undan þeirri ábyrgð að ergja mína kjósendur og sjálfan mig með því að þurfa að horfa á þetta fyrirbrigði. En vegna sérlega góðrar frammistöðu hv. 6. þm. Reykv. í nokkrum menningarmálum í sambandi við afgreiðslu fjárl., einkum þar sem hann átti sinn þátt, ásamt fleirum, í að hrinda af stað bókasafnsmálinu, var ég mjög hamingjusamur að geta fengið hann að meðflm. að þessu þarfa máli.

Hef ég svo ekki þau orð fleiri.