Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1190, 112. löggjafarþing 484. mál: félagsráðgjöf (starfsleyfi og sérfræðileyfi).
Lög nr. 48 15. maí 1990.

Lög um breytingu á lögum nr. 41/1975, um félagsráðgjöf.


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Leyfi skv. 1. gr. skal veita umsækjanda sem lokið hefur prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
     Veita má umsækjanda, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr., leyfi til að kalla sig félagsráðgjafa og stunda félagsráðgjöf hér á landi. Leita skal umsagnar Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands áður en leyfi samkvæmt þessari málsgrein er veitt. Félagsvísindadeild Háskóla Íslands getur sett sem skilyrði að viðkomandi sanni kunnáttu í íslenskum lögum og reglum er varða störf félagsráðgjafa hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli.

2. gr.

     Á eftir 3. gr. kemur ný grein sem verður 4. gr. og orðast svo:
     Félagsráðgjafi má kalla sig sérfræðing í sérgrein innan félagsráðgjafar hafi hann fengið til þess leyfi heilbrigðisráðherra.
     Heilbrigðisráðherra setur með reglugerð, að fengnum tillögum Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, nánari ákvæði um skilyrði fyrir veitingu leyfis til að kalla sig sérfræðing í einhverri af sérgreinum félagsráðgjafar.

3. gr.

     4. gr. laganna verður 5. gr. og 5. gr. laganna verður 6. gr.
     Á eftir 6. gr. (var 5. gr. laganna) komi ný grein, 7. gr., sem orðast svo:
     Félagsráðgjafa ber að þekkja skyldur sínar samkvæmt lögum, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða félagsráðgjöf.
     Félagsráðgjafar bera ábyrgð á þeirri félagsráðgjöf sem þeir veita.

4. gr.

     Í 6. gr. laganna, sem verður 8. gr., breytist tilvísun í læknalög þannig að hún verði læknalög, nr. 53/1988.

5. gr.

     7. gr. laganna verður 9. gr. og 8. gr. laganna verður 10. gr.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella þau inn í meginmál laga nr. 41/1975 og gefa lögin út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 1990.