Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1123, 113. löggjafarþing 451. mál: frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri (hámark frádráttar, hlutabréfaviðskipti o.fl.).
Lög nr. 44 2. apríl 1991.

Lög um breyting á lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað fjárhæðanna „115.000 kr.“ og „230.000 kr.“ í 2. gr. laganna komi: 86.000 kr. og 172.000 kr.

2. gr.

     10. gr. laganna orðist svo:
     Einstaklingar, sem kaupa hlutabréf í innlendum hlutafélögum er fullnægja skilyrðum 11. gr., geta dregið kaupverð þeirra hlutabréfa frá skattskyldum tekjum sínum innan þeirra marka sem um getur í 2. gr. og að svo miklu leyti sem um er að ræða aukningu á fjárfestingu í atvinnurekstri samkvæmt lögum þessum.
     Frádráttur skv. 1. mgr. vegna hlutabréfakaupa miðast við kaup á hlutabréfum í innlendum hlutafélögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, og er háður því skilyrði að maður eigi viðkomandi hlutabréf í a.m.k. tvö ár. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Skal hann framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 75/1981 frá því ári þegar hann var dreginn frá tekjum til söluárs. Ekki skal þó beita ákvæðum um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir önnur hlutabréf í innlendu hlutafélagi staðfestu af ríkisskattstjóra í stað hinna seldu innan 30 daga frá söludegi þeirra og kaupverð keyptra hlutabréfa nemur a.m.k. sömu fjárhæð og hinna seldu. Sé kaupverðið lægra skulu ákvæði 2. og 3. málsl. eiga við um mismuninn.
     Fjárhæð umfram frádráttarmörk, sem lögð er í hlutafjáraukningu í hlutafélagi eða lögð til hlutafjárkaupa við stofnun hlutafélags, er heimilt að flytja milli ára og nýta á næstu fimm árum. Ónýtt frádráttarheimild tekur hækkun samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1992.

Samþykkt á Alþingi 20. mars 1991.