Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 441, 121. löggjafarþing 151. mál: póstþjónusta (heildarlög).
Lög nr. 142 27. desember 1996.

Lög um póstþjónustu.


I. KAFLI
Gildissvið laganna og markmið.

1. gr.

     Lög þessi gilda um póstþjónustu og aðra starfsemi er varðar viðtöku, flokkun, flutning og skil á póstsendingum gegn greiðslu.
     Markmið laganna er að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu um land allt.

II. KAFLI
Orðskýringar.

2. gr.

     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
      Póstsending: Hvers konar bréf eða önnur sending sem flutt er með póstþjónustuaðila.
      Póstmeðferð: Viðtaka, flokkun, flutningur og skil á póstsendingum.
      Póstþjónusta: Póstmeðferð hvers konar bréfa og annarra sendinga, með eða án utanáskriftar.
      Grunnpóstþjónusta: Póstmeðferð bréfa og annarra sendinga með utanáskrift sem vega allt að 20 kg að þyngd.
      Póstþjónustuaðili: Aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu.
      Póstrekandi: Aðili sem annast einn eða fleiri þætti grunnpóstþjónustu.
      Rekstrarleyfishafi: Aðili sem hefur leyfi til grunnpóstþjónustu skv. 11. gr. laganna.
      Einkaréttarhafi: Aðili sem samkvæmt sérstöku leyfi fer með einkarétt og skyldur ríkisins skv. IV. kafla laganna.
      Póstkassi: Kassi sem ætlaður er fyrir viðtöku og uppsöfnun bréfapóstsendinga, til frekari póstmeðferðar.
      Frímerki: Gjaldmiðill, útgefinn af ríkinu, sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstþjónustu. Frímerki skal bera áletrunina „ÍSLAND“.
      Gjaldmerki: Merki, sem ætluð eru til álímingar á póstsendingar og notuð eru af póstþjónustuaðilum og með auðkenni þeirra, til staðfestingar því að greitt hafi verið fyrir póstþjónustu.
      Fjármunapóstsending: Greiðsluviðskipti með millifærslum (póstgíró), póstávísanir, póstkröfur og önnur fjármunaþjónusta.

III. KAFLI
Yfirstjórn póstmála.

3. gr.

     Samgönguráðherra fer með yfirstjórn póstmála.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með póstmálum hér á landi og eftirlit með framkvæmd laga þessara.

IV. KAFLI
Skyldur ríkisins og einkaréttur.

4. gr.

Skyldur ríkisins.
     Íslenska ríkið skal tryggja landsmönnum reglulega grunnpóstþjónustu vegna eftirfarandi sendingartegunda:
  1. Bréfa, án tillits til innihalds, sem lögð eru í umslög eða sambærilegar umbúðir með utanáskrift.
  2. Skriflegra utanáritaðra orðsendinga með sérstöku innihaldi, þar með talinna póstkorta.
  3. Annarra sendinga með utanáskrift og prentuðu innihaldi, sem er að öllu leyti eins, t.d. verðlista og bæklinga án ytri umbúða.
  4. Dagblaða, vikublaða og tímarita, með utanáskrift eða annarri sambærilegri tilgreiningu.
  5. Böggla með utanáskrift.

     Jafnframt skal ríkið tryggja póstmeðferð vegna eftirfarandi þjónustuþátta:
  1. Fjármunapóstsendinga.
  2. Ábyrgðarsendinga.
  3. Verðsendinga.
  4. Sendinga með blindraletri.

      Í reglugerð skal kveðið á um þyngdarmörk, umfang og nánari skilgreiningu sendinga skv. 1. og 2. mgr.

5. gr.

Þjónustuskylda til og frá útlöndum.
     Um þjónustuskyldu ríkisins vegna grunnpóstþjónustu til og frá útlöndum fer samkvæmt alþjóðlegum samningum.

6. gr.

Einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar.
     Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstmeðferð eftirfarandi póstsendinga:
  1. Lokaðra bréfapóstsendinga hvert svo sem innihald þeirra kann að vera.
  2. Annarra lokaðra sendinga sem uppfylla skilyrði til þess að vera veitt viðtaka í póst, að svo miklu leyti sem innihald þeirra er ritaðar orðsendingar eða prentaðar tilkynningar, útfylltar með skrift, að undanskildum vörureikningum, fylgiseðlum, farmskrám og svipuðum fylgiskjölum með sendingum.

     Ríkið hefur einnig einkarétt til póstmeðferðar á póstsendingum skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr., öðrum en hraðsendingum, sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi. Hefur ríkið enn fremur einkarétt til póstmeðferðar á slíkum póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.
     Einkarétturinn nær ekki til póstmeðferðar með verðlista, bæklinga, blöð og tímarit með utanáskrift sé innihald allra sendinga eins og án umbúða eða um þær búið í gagnsæjum umbúðum.
     Sérhverjum er heimilt að sinna póstþjónustu innan eigin starfsemi.
     Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um takmörkun eða afnám einkaréttar vegna póstmeðferðar póstsendinga sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi, svo og á póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.

7. gr.

Uppsetning póstkassa.
     Íslenska ríkið hefur einkarétt á uppsetningu póstkassa á almannafæri og á stöðum sem almenningur hefur aðgang að.

8. gr.

Útgáfa frímerkja.
     Íslenska ríkið hefur einkarétt á útgáfu frímerkja.

9. gr.

Auðkenni.
     Íslenska ríkinu er einu heimilt að nota póstlúður, með eða án stjörnu eða örva, í myndmerki til auðkenningar póstþjónustu.

10. gr.

Póstsendingar sem fluttar eru til útlanda í því skyni að senda þær aftur til Íslands.
     Ef póstsendingar, sem falla undir grunnpóstþjónustu, eru fluttar frá landinu til póstmeðferðar í öðru landi, með það fyrir augum að þær séu sendar aftur hingað til lands og bornar út hér á landi, getur póstrekandi neitað að taka við þeim.

V. KAFLI
Rekstrarleyfi, skyldur o.fl.

11. gr.

Útgáfa rekstrarleyfa.
     Öðrum en þeim sem fengið hafa til þess rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar er óheimilt að annast grunnpóstþjónustu. Í rekstrarleyfi skal tilgreina til hvaða þátta grunnpóstþjónustu rekstrarleyfið nær og þær kvaðir og skilyrði sem leyfinu fylgja.
     Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnpóstþjónustu skuli undanþegnir rekstrarleyfi.

12. gr.

Útgáfa rekstrarleyfis til einkaréttarhafa.
     Íslenska ríkinu er heimilt að fela póstrekanda að fara með einkarétt sinn og skyldur samkvæmt lögum þessum.
     Póst- og fjarskiptastofnun veitir leyfi til að annast einkarétt ríkisins skv. IV. kafla laganna.

13. gr.

Skilyrði.
     Póst- og fjarskiptastofnun setur skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingu skv. 11. og 12. gr. Skulu skilyrðin vera skýr og þannig að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa.
     Rekstrarleyfi skulu að jafnaði vera tímabundin.
     Skilyrði fyrir leyfisveitingu geta verið eitt eða fleiri, þar með talið:
  1. að greitt sé leyfisgjald og rekstrargjald í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs,
  2. að uppfylltar séu þjónustu- og gæðakröfur,
  3. að tryggt sé að almenningur njóti aðgengis að grunnpóstþjónustu,
  4. að skylt sé að annast sérstök verkefni þótt þau séu ekki arðbær, sbr. 4. gr. laganna,
  5. að gjaldskrá einkaréttarhafa sé háð samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar og að gjaldskrár fyrir einkaréttarþjónustu sæti eftirliti hennar, sbr. VI. kafla laganna,
  6. að virtar séu uppgjörs- og bókhaldsreglur sem settar kunna að vera,
  7. að sett sé trygging fyrir greiðslu kostnaðar vegna skila á póstsendingum til viðtakenda ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar rekstrarleyfishafa kemur,
  8. að rekstrarleyfishafi sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar að því er varðar fjárhagslega stöðu á hverjum tíma með tilliti til hættu á rekstrarstöðvun,
  9. að alþjóðasamningar á sviði póstmála séu virtir,
  10. að rekstrarleyfishafi taki þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði póstmála.

     Heimilt er að breyta skilyrðum fyrir rekstrarleyfi, enda hafi forsendur fyrir því breyst eða þær brostið. Skilyrðum má einnig breyta til samræmis við breytingar á lögum og reglum og þegar alþjóðasamningar gefa tilefni til slíks.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur, auk skilyrða skv. 3. mgr., sett einkaréttarhafa almenn skilyrði sem varða skyldur ríkisins skv. 4. gr. Þá getur stofnunin gert einkaréttarhafa að gefa út frímerki og nota sérstakt auðkenni fyrir starfsemi sína, t.d. póstlúður, með eða án stjörnu og örva eða annarra tákna. Einkaréttarhafi getur heimilað þriðja aðila að nota auðkennið, enda starfi hann í hans þágu.

14. gr.

Skylda til að bera út dagblöð, vikublöð og tímarit.
     Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um að einkaréttarhafar annist póstmeðferð utanáritaðra dagblaða, vikublaða og tímarita á Íslandi samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar póstsendingar af sömu þyngd, stærð og umfangi að öðru leyti. Samgönguráðherra skilgreinir nánar í reglugerð hvað teljist til dagblaða, vikublaða og tímarita samkvæmt þessari grein.
     Póst- og fjarskiptastofnun ber að bæta einkaréttarhafa upp mismun á burðargjaldi samkvæmt gjaldskrá hans og því gjaldi sem samgönguráðherra mælir fyrir um skv. 1. mgr. fyrir sambærilegar sendingar.

15. gr.

Flutningur fyrir einkaréttarhafa.
     Aðilum, sem annast flutning á póstsendingum fyrir einkaréttarhafa, er óheimilt, án samþykkis einkaréttarhafans, að hafa meðferðis aðrar sendingar við slíkan flutning. Aðilum, sem halda uppi reglubundnum farþegaflutningum, er þó heimilt að flytja slíkar sendingar með flutningatækjum sínum.

16. gr.

Skylda til að flytja póstsendingar í grunnpóstþjónustu.
     Hver sá sem heldur uppi reglubundnum flutningum innan lands eða til útlanda er skyldugur til, sé þess óskað, að flytja póstsendingar í grunnpóstþjónustu milli endastöðva og póststöðva á leiðinni, enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Slíkar póstsendingar njóta forgangs fram yfir annan vöruflutning.

17. gr.

Ábyrgðar- og verðsendingar.
     Póstsendingar er unnt að senda sem ábyrgðarsendingar. Enn fremur er unnt að senda póstsendingar, þar með talda böggla, sem verðsendingar.

VI. KAFLI
Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár o.fl.

18. gr.

Viðskiptaskilmálar fyrir grunnpóstþjónustu, uppgjörs- og bókhaldsreglur.
     Póstrekendur skulu semja og birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sína sem um grunnpóstþjónustu gilda. Póstrekendur skulu senda til Póst- og fjarskiptastofnunar svo fljótt sem auðið er viðskiptaskilmála sína, svo og breytingar á þeim.
     Gjaldskrár fyrir grunnpóstþjónustu skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þær skulu vera gagnsæjar og í samræmi við jafnræðisreglur.
     Einkaréttarhafi skal gefa út sérstaka gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem lýtur einkarétti. Gjaldskráin skal staðfest af Póst- og fjarskiptastofnun.
     Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð sérstakar reglur um bókhald póstrekenda, sundurgreiningu þess og fjárhagslegan aðskilnað milli póstþjónustu og annars reksturs og milli einkaréttarþjónustu og annarrar þjónustu.

19. gr.

Gjaldfrjálsar póstsendingar.
     Póstsending sem ekki ber gjald samkvæmt alþjóðasamningum skal einnig vera gjaldfrjáls innan lands.

VII. KAFLI
Skráning póstrekenda, merking pósts o.fl.

20. gr.

Skráningarskylda.
     Póstrekendum, öðrum en þeim sem hafa rekstrarleyfi skv. 11. gr. eða fara með einkarétt ríkisins skv. 12. gr., ber að skrá starfsemi sína hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
     Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skráningarskyldu póstrekenda, þar með talið hvaða upplýsingar skuli veita við skráningu.

21. gr.

Merking pósts.
     Póstsendingar skulu merktar með áprentun eða öðru auðkenni er sýni hvaða póstrekendur annast póstmeðferð þeirra.

22. gr.

Gjaldmerki.
     Póstþjónustuaðilum er heimilt að nota til álímingar á póstsendingar gjaldmerki til staðfestingar því að greitt hafi verið fyrir póstþjónustu. Skulu slík gjaldmerki bera auðkenni viðkomandi póstþjónustuaðila.

VIII. KAFLI
Almennar reglur um póstþjónustu.

23. gr.

Afhending póstsendingar.
     Póstsendingu skal dreift til eða afhent þeim sem hún er stíluð á eða hefur umboð til móttöku hennar, í pósthólf viðkomandi eða þangað sem utanáskrift segir að öðru leyti til um.

24. gr.

Vörslur póstsendinga.
     Póstsending telst í vörslu póstþjónustuaðila frá viðtöku og þar til hún hefur verið afhent viðtakanda í samræmi við 23. gr.

25. gr.

Bréfakassar og bréfarifur.
     Húseigendum er skylt að hafa bréfarifur á útihurðum eða setja upp bréfakassa í eða við hús sín á eigin kostnað.
     Samgönguráðherra setur nánari ákvæði þar um í reglugerð.

26. gr.

Ráðstöfunarréttur yfir póstsendingu.
     Sendandi telst eigandi og hefur ráðstöfunarrétt yfir póstsendingu sem hann hefur afhent póstþjónustuaðila uns hún hefur verið afhent viðtakanda.

27. gr.

Hættulegir hlutir o.fl.
     Póstsending má ekki innihalda neitt sem bannað er að flytja eða dreifa eða sem að ytra útliti ber með sér eitthvað ólögmætt, ósæmilegt eða móðgandi.
     Óskylt er að taka við póstsendingu sem hætta getur stafað af eða erfiðleikar eru á að flytja, svo og hlutum sem óheimilt er að flytja samkvæmt öðrum lögum eða reglum.

28. gr.

Verðmæti.
     Póstsendingar, aðrar en ábyrgðarsendingar og verðsendingar, mega ekki innihalda peningaseðla, mynt eða neins konar verðskjöl á handhafa, dýra málma, skartgripi eða hliðstæð verðmæti.

29. gr.

Óskilapóstur, ógreiddar og vangreiddar póstsendingar o.fl.
     Samgönguráðherra getur mælt fyrir um í reglugerð hvernig fara skuli með póstsendingar sem ekki verður komið til skila, hvort heldur til viðtakanda eða sendanda, svo og sendingar sem bera það með sér að vera ógreiddar eða vangreiddar.
     Samgönguráðherra er á sama hátt heimilt að mæla fyrir um meðferð póstsendinga sem lenda fyrir mistök hjá öðrum póstþjónustuaðila en þeim sem ætlað var að annast sendinguna.

IX. KAFLI
Greiðslur fyrir óarðbæra þjónustu.

30. gr.

Jöfnunargjald.
     Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga til að fjármagna skyldubundna grunnpóstþjónustu þar sem slík þjónusta er óarðbær skal innheimta álag, jöfnunargjald, sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar.
     Skal jöfnunargjaldið lagt á alla rekstrarleyfishafa í hlutfalli við bókfærða veltu af grunnpóstþjónustu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem rekstrarleyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi. Sá þáttur rekstrarleyfishafa sem lýtur leyfisbundinni starfsemi hér á landi skal vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.
     Jöfnunargjald samkvæmt lögum þessum skal ákveðið árlega með lögum, í fyrsta skipti fyrir gjaldárið 1998.
     Jöfnunargjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
     Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
     Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í póstþjónustu, þar á meðal um útreikning á kostnaði við að veita þjónustuna og um útreikning rekstrartaps.
     Kostnaður sem rekja má til ákvarðana samgönguráðherra skv. 1. mgr. 14. gr. skal greiddur með framlagi úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

31. gr.

Fjárframlög.
     Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita fjárframlög til rekstrarleyfishafa sem annast óarðbæra þjónustu skv. 30. gr. eftir umsókn viðkomandi. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að umsækjandi upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartap sé af starfseminni og hvernig það sundurliðist. Þá getur stofnunin við umsókn um fjárframlög krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda eða falið slíkum aðilum að yfirfara umsóknina, ásamt fylgigögnum. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa áður en ákvörðun er tekin um fjárframlög samkvæmt ákvæði þessu.
     Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Telji Póst- og fjarskiptastofnun eða rekstrarleyfishafi að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega er unnt að krefjast endurskoðunar á framlaginu.
     Nú er hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu og getur Póst- og fjarskiptastofnun þá krafist þess að sá þáttur starfseminnar sé bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi viðkomandi.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal skera úr ágreiningi um fjárframlög, þar á meðal um endurskoðun slíkra framlaga.

X. KAFLI
Póstleynd o.fl.

32. gr.

Póstleynd.
     Einungis má veita upplýsingar um póstsendingar og notkun póstþjónustu að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum.
     Öllum sem starfa við póstþjónustu, hvort sem er samkvæmt ráðningarsamningi eða verksamningi, er óheimilt að gefa óviðkomandi aðilum upplýsingar um póstsendingar eða gefa öðrum tækifæri til þess að verða sér úti um slíka vitneskju. Enn fremur er þeim óheimilt að opna eða lesa það sem afhent er til póstsendingar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

33. gr.

Undanþágur.
     Þrátt fyrir ákvæði 32. gr. er heimilt að opna án dómsúrskurðar þær póstsendingar sem ekki er unnt að koma til skila til þess að freista þess að komast að því hverjir sendendur eru svo að unnt sé að endursenda þær. Enn fremur er heimilt að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Hið sama á við þegar rökstuddur grunur leikur á um að ekki hafi verið forsvaranlega búið um sendingu vegna innihalds hennar eða að sending innihaldi hluti sem hættulegt getur verið að senda.
     Böggla sem fluttir eru til landsins frá útlöndum má opna ef nauðsynlegt er vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Aðrar lokaðar póstsendingar má ekki opna vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda nema í viðurvist viðtakanda.
     Póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota má afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra, enda beri þær með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns. Sendingar til látinna manna skal á sama hátt afhenda skiptastjóra þegar um opinber skipti er að ræða. Þegar um einkaskipti er að ræða skulu allar póstsendingar afhentar forráðamanni dánarbús nema þær beri það með sér að vera einkabréf. Skal sending þá endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.
     Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari reglur um póstleynd og opnun póstsendinga án dómsúrskurðar.

XI. KAFLI
Skaðabætur.

34. gr.

Gildissvið kaflans.
     Ákvæði þessa kafla eiga einungis við um grunnpóstþjónustu.

35. gr.

Ábyrgðartakmarkanir.
     Skaðabætur greiðast ekki fyrir glataðar póstsendingar, nema póstrekandi hafi tekið á sig slíka ábyrgð sérstaklega, sbr. þó 36.–38. gr. Sama gildir þótt innihaldið glatist að nokkru eða öllu leyti.
     Póstrekanda er óskylt að greiða skaðabætur þegar póstsendingum seinkar, hver svo sem orsökin kann að vera.

36. gr.

Ábyrgðarsendingar og bögglar.
     Fyrir ábyrgðarsendingar og böggla, sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti, á sendandi rétt á skaðabótum er svari til hins raunverulega verðmætis. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um hámark ábyrgðar sem póstrekendur skulu taka á sig samkvæmt ákvæði þessu.

37. gr.

Verðsendingar.
     Fyrir verðsendingar, sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti, á sendandi rétt á skaðabótum er svari til hins raunverulega verðmætis, en þó aldrei hærri en nemur hinu tilgreinda verði.

38. gr.

Fjármunapóstsendingar.
     Póstrekandi ber fulla ábyrgð á því fé sem hann hefur tekið við til sendingar sem fjármunapóstsendingu.

39. gr.

Óbeint tjón.
     Skaðabætur ná aðeins til verðs þess hlutar sem glatast hefur eða þeirrar rýrnunar sem hinir skemmdu hlutir hafa orðið fyrir.
     Eigi er skylt að bæta ábata- eða afnotamissi, tjón vegna rýrnunar á verðgildi peninga eða aðrar óbeinar afleiðingar skaðans.

40. gr.

Póstsendingar á milli landa.
     Um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa skal farið samkvæmt gildandi milliríkjasamningum.
     Verði tjón á sendingu meðan hún er á íslensku póstsvæði greiðast þó skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða, enda sé það hagstæðara fyrir hlutaðeigandi tjónþola.

41. gr.

Sérstök tilvik.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum undantekningartilvikum mælt fyrir um það með úrskurði að póstrekandi skuli þrátt fyrir ábyrgðartakmarkanir greiða skaðabætur fyrir póstsendingar, ef tjónið er slíkt og aðstæður allar þess eðlis að ákvæði þessa kafla um takmarkaðar skaðabætur þykja ekki eiga við, t.d. þar sem tjóni er valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi póstrekanda eða starfsmanna hans.

42. gr.

Fyrning skaðabótakröfu.
     Skylda til greiðslu skaðabóta fellur niður sé þeirra ekki krafist innan árs frá því viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.

XII. KAFLI
Milliríkjasamningar.

43. gr.

Póstþjónusta við önnur lönd.
     Ákvæði laga þessara gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.

44. gr.

Þátttaka póstrekenda í alþjóðlegu samstarfi.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um að póstrekendur skuli taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði póstmála.

XIII. KAFLI
Viðurlög.

45. gr.

     Brot á lögum þessum varða sektum, en varðhaldi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Gáleysisbrot skulu varða sektum.
     Brot gegn X. kafla laganna, um póstleynd, varða sektum eða varðhaldi eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé brotið framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.

XIV. KAFLI
Reglugerðir.

46. gr.

     Reglugerðir um framkvæmd laga þessara setur samgönguráðherra.

XV. KAFLI
Gildistaka og brottfallin lög.

47. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Jafnframt falla úr gildi póstlög, nr. 33 5. maí 1986, með síðari breytingu.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1996.