Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1358, 121. löggjafarþing 424. mál: Lánasjóður landbúnaðarins.
Lög nr. 68 26. maí 1997.

Lög um Lánasjóð landbúnaðarins.


1. gr.

     Lánasjóður landbúnaðarins er stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir landbúnaðarráðherra. Sjóðurinn telst lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og gilda þau lög um starfsemi hans nema annað sé boðið í lögum þessum. Honum verður ekki gert að starfa í formi hlutafélags.

2. gr.

     Hlutverk Lánasjóðs landbúnaðarins er að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla þannig að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Sjóðurinn veitir lán til bænda og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Í því skyni er sjóðnum heimilt að afla sér fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings.

3. gr.

     Landbúnaðarráðherra skipar fimm menn í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins til fjögurra ára í senn. Bændasamtök Íslands skulu tilnefna tvo menn í stjórnina en þrír skulu skipaðir af landbúnaðarráðherra án tilnefningar. Landbúnaðarráðherra skipar formann og varaformann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra ákveður þóknun stjórnar.

4. gr.

     Verkefni stjórnar Lánasjóðs landbúnaðarins eru meðal annars þessi:
  1. að ráða framkvæmdastjóra,
  2. að setja almennar reglur um lánveitingar og lánakjör,
  3. að ákveða rekstrar- og starfsáætlun sjóðsins,
  4. að undirrita ársreikninga sem staðfestir skulu af ráðherra,
  5. að taka ákvörðun um lántöku samkvæmt heimild í lánsfjárlögum ár hvert,
  6. að semja við aðrar stofnanir um einstaka rekstrarþætti í starfsemi sjóðsins þyki það hagkvæmt.


5. gr.

     Verkefni framkvæmdastjóra Lánasjóðs landbúnaðarins eru meðal annars þessi:
  1. að stjórna og bera ábyrgð á daglegum rekstri,
  2. að gera tillögur til stjórnar um starfsskipulag,
  3. að gera tillögur um rekstur og starfsáætlun,
  4. að gera tillögur um lánareglur,
  5. að gera tillögur að lántökum sjóðsins,
  6. að gera tillögu um framlag á afskriftareikning,
  7. að ráða starfsmenn,
  8. að taka ákvörðun um einstakar lánveitingar á grundvelli almennra reglna sem stjórnin setur, sbr. b-lið 4. gr.


6. gr.

     Tekjur Lánasjóðs landbúnaðarins eru vaxtatekjur, þjónustugjöld og tekjur af búnaðargjaldi.

7. gr.

     Sjóðurinn veitir lán til eftirtalinna verkefna:
  1. til jarðakaupa,
  2. til ræktunar, útihúsa og hvers konar annarra bygginga er varða landbúnað, þar með talið lax- og silungseldi,
  3. til vatns- og varmaveitna,
  4. til bústofns- og vélakaupa,
  5. til verkefna er leiða til hagræðingar og framleiðniaukningar,
  6. til annarrar atvinnustarfsemi í sveitum,
  7. til vinnslustöðva landbúnaðarafurða.


8. gr.

     Um ákvörðun útlána skal hafa hliðsjón af því hverjar rekstrarforsendur viðkomandi búgreina eru og hversu há veðlán hvíla á eigninni og skal eigi veita lán ef ástæða er til að ætla að búrekstur á jörðinni geti ekki staðið undir auknum lánum.
     Upphæð lána má vera allt að 60% kostnaðarverðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Lán er heimilt að veita í áföngum.

9. gr.

     Lán má veita gegn þessum tryggingum:
  1. veði í fasteign, enda hvíli eigi veðskuldir á henni til annarra en Lánasjóðs landbúnaðarins eða annarra opinberra sjóða á undan veðrétti þeim sem sjóðurinn fær,
  2. veði í þeim húsum sem lánað er til, ásamt tilheyrandi lóð og lóðarréttindum, ef þau eru byggð fyrir sjálfstæðan rekstur,
  3. veði í þeim vélum sem keyptar eru,
  4. ábyrgð sveitarsjóðs vegna eigin framkvæmda.


10. gr.

     Lán til nýrra bygginga, jarðakaupa og ræktunar mega vera til allt að 25 ára, svo og til þeirra framkvæmda sem varanlegar teljast, en lán til vélakaupa, bústofnskaupa og annars þess sem hefur skemmri endingu til allt að 12 ára. Skal nánar kveðið á um í lánareglum hve langur lánstími má vera í hverjum lánaflokki.
     Heimilt er að lán til jarðakaupa og húsbygginga séu afborgunarlaus fyrstu tvö árin.

11. gr.

     Lánasjóður landbúnaðarins skal leitast við að varðveita raungildi eigin fjár síns. Arð af eigin fé skal einungis heimilt að nota til að lækka vexti á útlánum sjóðsins, sbr. ákvæði í 4. gr., nema raungildi eigin fjár hafi rýrnað.
     Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Lánasjóðs landbúnaðarins og greiðir þær ef eignir og tekjur sjóðsins hrökkva ekki til.

12. gr.

     Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með að starfsemi Lánasjóðs landbúnaðarins sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 123/1993 eftir því sem við getur átt.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1998. 1. janúar 1998 falla úr gildi lög nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, með síðari breytingum.
     Lánasjóður landbúnaðarins tekur frá og með 1. janúar 1998 við öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Ekki skal gefin út innköllun til lánardrottna Stofnlánadeildar landbúnaðarins við yfirtökuna. Allir starfsmenn Stofnlánadeildar landbúnaðarins skulu eiga rétt á sambærilegu starfi hjá Lánasjóði landbúnaðarins við stofnun hans.
     1. júní 1997 breytast lög nr. 45/1971 þannig að í stað hlutfallstölunnar „1%“ í 3. og 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. þeirra laga kemur: 0,4%.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 1997.