Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1151, 123. löggjafarþing 260. mál: tilkynningarskylda íslenskra skipa (sjálfvirkt kerfi).
Lög nr. 39 19. mars 1999.

Lög um breytingu á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í sjálfvirku tilkynningarkerfi skulu skip tilkynna brottför og komu í höfn og staðsetningu sína á eftirfarandi hátt:
  1. Skip sem eru 24 metrar að lengd eða lengri skulu tilkynna sig á tólf klukkustunda fresti.
  2. Skip sem eru styttri en 24 metrar og er heimilt að sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á einnar klukkustundar fresti.
  3. Skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla á þjónustusvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti.
  4. Farþegaskip sem notuð eru í atvinnuskyni skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti.
  5. Skipum sem stunda takmarkaða sjósókn eða hafa aðeins sumarhaffæri er heimilt að tilkynna sig með öðrum leiðum eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.


2. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í sjálfvirku tilkynningarkerfi skal að lágmarki tilkynna auðkenni skips og staðsetningu þess.

3. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði 1. mgr. taka jafnframt til sjálfvirks tilkynningarkerfis.

4. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Sá sem annast rekstur fjarskiptanna skal sjá til þess að fjarskiptavirki séu til staðar til móttöku tilkynninga og áframhaldandi sendingar þeirra til eftirlitsstöðvar.

5. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Handvirka tilkynningarkerfið skal rekið í allt að þrjú ár samhliða sjálfvirka tilkynningarkerfinu.

6. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir þjónustu í handvirka tilkynningarkerfinu og tilkynningar um gervihnattasamband greiða eigendur skipanna fyrir fjarskiptin samkvæmt gjaldskrá þess sem þjónustuna veitir.
     Fyrir þjónustu í sjálfvirka tilkynningarkerfinu skal eigandi hvers skips greiða umsamið árgjald sem rennur til Slysavarnafélags Íslands til að mæta kostnaði þess.

7. gr.

     11. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

8. gr.

     12. gr. laganna, er verður 11. gr., orðast svo:
     Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga.

9. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Ákvæði e-liðar 2. mgr. 1. gr. skal endurskoða fyrir árslok 2000.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.