Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1266, 133. löggjafarþing 559. mál: málefni aldraðra (greiðslur fjármagnstekjuhafa í Framkvæmdasjóð aldraðra).
Lög nr. 32 23. mars 2007.

Lög um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. og 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldið skal nema 6.314 kr. á hvern gjaldanda og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
     Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru undanþegnir gjaldinu einstaklingar sem hafa tekjuskattsstofn skv. 1. og 3. tölul. 61. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, samtals lægri en 1.080.067 kr. á tekjuárinu 2007. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þó skipta sameiginlegum fjármagnstekjum skv. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin. Tekjuviðmiðun þessi skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti skv. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og innheimtuhlutfalli viðkomandi staðgreiðsluárs samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Skattstjóri skal fella gjald þetta niður af öldruðum og öryrkjum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2008 vegna tekna ársins 2007. Ákvæði laga nr. 147/2006, um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, skulu gilda við álagningu á árinu 2007 vegna tekna ársins 2006.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2007.