8.4.2021

Fjarfundur forseta Alþingis með forseta þjóðþings Eistlands

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, átti í morgun fjarfund með Jüri Ratas, nýkjörnum forseta Riigikogu, þjóðþings Eistlands. Ræddu þeir samskipti þinganna og ríkjanna en í ágúst næstkomandi verða 30 ár síðan Ísland var fyrst ríkja heims til að taka upp stjórnmálasamband við Eistland eftir endurreisn sjálfstæðis frá Sovétríkjunum.

Ræddu þingforsetarnir meðal annars ýmsar áskoranir þjóðþinga á tímum heimsfaraldurs, svo sem rafrænar lausnir við fundahöld og alþjóðasamskipti. Þá ræddu þeir hættur sem í slíku felast, líkt og nýlegar tölvuárásir á norska og finnska þingið sýna, og hvernig miðla má þekkingu um upplýsingatækniöryggi. Lögðu þeir áherslu á mikilvægi góðra tvíhliða samskipta þinganna, sem og samstarf á vettvangi þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.