18.1.2023

Fulltrúi Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefnd)

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins auglýsir laust til umsóknar sæti í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni). Meginhlutverk nefndarinnar er að meta aðstæður í fangelsum, búðum fyrir flóttamenn, á lögreglustöðvum, vistunarheimilum, geðsjúkrahúsum o.s.frv. í aðildarríkjum CPT-sáttmálans með tilliti til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Frekari upplýsingar um störf nefndarinnar

Þátttaka í nefndinni felur í sér skuldbindingu um vinnuframlag erlendis u.þ.b. 40 daga á ári. Nefndarfólk fær greiddan ferðakostnað og dagpeninga, auk greiðslna fyrir undirbúning og skýrslugerð í kringum fundi nefndarinnar. Vinnumál nefndarinnar eru tvö, enska og franska.

Hæfniskröfur

  • Menntun og reynsla sem tengist starfi nefndarinnar.
  • Sérþekking á málefnum frelsissviptra einstaklinga.
  • Mjög gott vald á öðru vinnumáli nefndarinnar, þ.e. ensku eða frönsku, og að auki einhver þekking á hinu.
  • Geta og vilji til að sinna störfum nefndarinnar.

Bent skal á að störf nefndarinnar geta verið bæði andlega og líkamlega krefjandi. Gæta þarf að því að aðalstarf nefndarfólks valdi ekki hagsmunaárekstrum.

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins tilnefnir í mars þrjú til að gangast undir hæfnismat og kýs ráðherranefnd Evrópuráðsins síðan eitt þeirra til setu í nefndinni til fjögurra ára. Seta í nefndinni getur varað allt að þrjú kjörtímabil en í lok hvers kjörtímabils ber engu að síður að tilnefna þrjú til setu í nefndinni hverju sinni.

Starfið hentar öllum kynjum og áhugasöm eru hvött til að sækja um með því að fylla út viðeigandi eyðublað, á ensku eða frönsku, og senda í tölvupósti til Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum á skrifstofu Alþingis. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti mánudaginn 13. febrúar nk.

Umsóknareyðublað