34. fundur
allsherjar- og menntamálanefndar á 154. löggjafarþingi
haldinn í Smiðju, fimmtudaginn 25. janúar 2024 kl. 09:10


Mætt:

Bryndís Haraldsdóttir (BHar) formaður, kl. 09:10
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (HHH) 2. varaformaður, kl. 09:16
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (ArnG) fyrir Halldóru Mogensen (HallM), kl. 09:10
Berglind Ósk Guðmundsdóttir (BGuðm), kl. 09:10
Brynhildur Björnsdóttir (BrynB) fyrir (JSIJ), kl. 09:10
Dagbjört Hákonardóttir (DagH), kl. 09:14
Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS), kl. 09:10

Bergþór Ólason var fjarverandi.
Eyjólfur Ármannsson boðaði forföll.

Nefndarritari: Inga Valgerður Stefánsdóttir

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 09:10
Fundargerð 33. fundar var samþykkt.

2) 32. mál - fjölmiðlar Kl. 09:10
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Elfu Ýr Gylfadóttur og Anton Emil Ingimarsson frá Fjölmiðlanefnd, sem tóku þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði. Því næst kom María Guðjónsdóttir frá Viðskiptaráði Íslands.

3) Skólahald barna frá Grindavík Kl. 09:56
Nefndin samþykkti að óska eftir upplýsingum frá mennta- og barnamálaráðuneyti um skólahald barna frá Grindavík, sbr. 51. gr. þingskapa, sbr. 26. gr. þingskapa, þar sem fram komi hvar börn til 16 ára aldurs sem áður voru búsett í sveitarfélaginu sækja nú leik- og grunnskóla, sundurliðað eftir bekk, kyni, búsetu, móðurmáli og uppruna.

4) Önnur mál Kl. 10:00
Nefndin ræddi starfið framundan og stöðu mála í nefndinni.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun: „Nú eru komnar meira en tvær vikur frá því að óskað var eftir opnum fundi í nefndinni vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar gagnvart framkvæmd fjölskyldusameininga fólks frá Gasasvæðinu. Það er óforsvaranlegt að formaður nefndarinnar skuli ekki setja málið í meiri forgang en raun ber vitni, þegar um er að ræða einstaklinga, þar á meðal börn, í bráðri lífshættu vegna linnulausra árása Ísraelshers á svæðið. Ljóst er að framkvæmdin er í höndum fleiri en eins ráðuneytis, þó lögin sem undir eru séu á forræði allsherjar- og menntamálanefndar. Af þessum sökum var óskað eftir því að forsætisráðherra yrði fengin til svara í nefndinni, í ljósi verkstjórnarhlutverks hennar gagnvart ríkisstjórninni í heild. Tel ég meirihlutann vera að drepa málinu á dreif með því að láta eins og málið sé svo flókið að margar vikur taki að boða til slíks fundar, þó um afar einfalda beiðni sé að ræða.“
Dagbjört Hákonardóttir tók undir bókunina.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 10:10