1. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, mánudaginn 16. september 2019 kl. 10:31


Mættir:

Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 10:31
Brynjar Níelsson (BN), kl. 10:31
Guðmundur Andri Thorsson (GuðmT), kl. 10:31
Jón Steindór Valdimarsson (JSV), kl. 10:31
Kolbeinn Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 10:31
Þórarinn Ingi Pétursson (ÞórP), kl. 10:31
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (ÞSÆ), kl. 10:31

Óli Björn Kárason var fjarverandi. Þorsteinn Sæmundsson var fjarverandi.

Nefndarritari: Björn Freyr Björnsson

Bókað:

1) Kosning formanns og 2. varaformanns Kl. 10:31
Jón Steindór Valdimarsson lagði til að kosið yrði um formann og 2. varaformann nefndarinnar og að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir yrði formaður og Guðmundur Andri Thorsson 2. varaformaður. Þar sem aðeins ein tillaga lá fyrir var lagt til að tilnefndir nefndarmenn væru sjálfkjörnir. Var það samþykkt.

Að því loknu lagði Líneik Anna Sævarsdóttir fram eftirfarandi bókun:

Við upphaf þessa kjörtímabils var gengið frá heildarsamkomulagi milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna um skiptingu embætta í nefndum þingsins í samræmi við ákvæði þingskapa. Í því fólst meðal annars að tiltekin formannsembætti kæmu í hlut stjórnarandstöðunnar og skiptust þau svo milli flokkanna innbyrðis samkvæmt þeirra samkomulagi. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lítur svo á að í ljósi heildarsamkomulagsins sé það ekki þeirra hlutverk að taka afstöðu til þess hvernig stjórnarandstaðan hagar þessari skiptingu eða hvaða þingmenn tilnefndir eru af hálfu einstakra flokka.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, Þórarinn Ingi Pétursson og Brynjar Níelsson tóku undir bókunina.

Brynjar Níelsson lagði fram eftirfarandi viðbótarbókun:

Ég styð ekki tillögu um að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir verði formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Samkvæmt áliti siðanefndar Alþingis og forsætisnefndar var þingmaðurinn talinn hafa brotið gegn siðareglum Alþingis. Eftir að það álit lá fyrir sýndi þingmaðurinn málsmeðferð siðanefndar og forsætisnefndar fádæma lítilsvirðingu á opinberum vettvangi. Af þeirri ástæði mun ég ekki styðja tillöguna.

2) Tillaga um heimsókn til Stortinget Kl. 10:35
Nefndin ræddi málið. Ákveðið að formaður óski eftir því við forsætisnefnd að nefndinni verði veitt fjármagn til að fara í ferð til Stortinget.

3) Starfið framundan Kl. 10:41
Nefndin ræddi starfið framundan. Formaður sagði frá hugmyndum um heimsókn fulltrúa frá fullnustudeild Mannréttindadómstóls Evrópu.

4) Önnur mál Kl. 10:50
Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 10:50