61. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í fjarfundur, föstudaginn 22. maí 2020 kl. 14:00


Mætt:

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (ÞSÆ) formaður, kl. 14:00
Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 14:00
Guðmundur Andri Thorsson (GuðmT) 2. varaformaður, kl. 14:00
Andrés Ingi Jónsson (AIJ), kl. 14:00
Brynjar Níelsson (BN), kl. 14:00
Kolbeinn Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 14:00
Óli Björn Kárason (ÓBK), kl. 14:00
Þórunn Egilsdóttir (ÞórE), kl. 14:00

Þorsteinn Sæmundsson boðaði forföll. Brynjar Níelsson vék af fundi kl. 14:16.

Nefndarritari: Björn Freyr Björnsson

Fundurinn var fjarfundur og voru allir tengdir fundinum í gegnum fjarfundabúnað, sbr. afbrigði sem veitt voru skv. 95. gr. við 17. og 22. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, á þingfundi 12. mars sl.

Bókað:

1) 523. mál - varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands Kl. 14:00
Nefndin samþykkti að afgreiða málið til annarrar umræðu.

Brynjar Níelsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason og Þórunn Egilsdóttir skrifuðu undir nefndarálit meiri hluta og breytingartillögur, þar af Óli Björn Kárason með fyrirvara.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Það vekur furðu að fulltrúar stjórnarflokkanna séu ekki til viðræðu um breytingar á drögum að nefndaráliti til að koma til móts við sjónarmið minni hlutans. Lýsir það ekki miklum samstarfsvilja, heldur þvert á móti einbeittum vilja meiri hlutans til ágreinings. Með frumvarpinu á að stíga mikilvæg skref í átt til gagnsæis um ákvarðanir innan Stjórnarráðs Íslands. Miklu skiptir að slík lagasetning sé vönduð og að vel takist til með framkvæmdina, en til þess þarf að gera breytingar sem meiri hlutinn telur sér ekki fært að gera. Það er miður, því hætt er við að niðurstaðan verði bitlaust eftirlit sem þurfi að lagfæra með lagabreytingu áður en langt um líður.

Andrés Ingi Jónsson og Guðmundur Andri Thorsson tóku undir bókunina.

Kolbeinn Óttarsson Proppé lagði fram eftirfarandi bókun:
Bókun formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lýsir furðulegri sýn á eðli samstarfs. Staðreyndin er sú að í nefndaráliti meirihlutans, sem og breytingartillögum, er að finna mörg atriði sem minnihlutinn kom að með óskum um breytingar á málinu. Samstaða náðist ekki um öll atriði, enda gengur samstarf ekki út á að einn aðili fái öllu sínu framgengt. Að kalla það einbeittan vilja til ágreinings er annað hvort sprottið af þeirri hugsun að eðlilegt sé að fá öllu sínu framgengt, eða mjög skapandi notkun tungumálsins. Þá er rétt að geta þess að enginn fulltrúi minnihlutans, hvorki formaður nefndarinnar né aðrir sem undir bókunina tóku, hafði samband við framsögumann málsins um að gera breytingar á drögum að nefndaráliti eftir að þau voru kynnt, né raunar nokkru sinni í meðferð málsins. Það mál sem hér er undir er framfaraskref, um það eru gestir og umsagnaraðilar langflestir sammála, og það er miður að minnihlutinn detti í þann pólitíska forarpytt að kalla það bitlaust og grafa þannig undan því. Málið fékk eðlilegan farveg innan nefndarinnar og sjónarmið allra nefndarmanna sem tjáðu sig um það er að finna í nefndaráliti meirihlutans.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björk Kárason og Þórunn Egilsdóttir tóku undir bókunina.

2) Önnur mál Kl. 14:10
Nefndin ræddi um fyrirkomulag næsta fundar.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 14:20