Rannsókn kjörbréfa

(2111073)
Kjörbréfanefnd

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
25.11.2021 3. fundur kjörbréfanefndar Rannsókn kjörbréfa
Nefndin fól skrifstofu Alþingis að vera í samskiptum við kærendur þegar Alþingi hefur skorið úr gildi alþingiskosninganna, sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar.

Birgir Ármannsson, formaður, gerði grein fyrir áliti og tillögu hans, Diljár Mistar Einarsdóttur, Ingu Sæland, Jóhanns Friðriks Friðrikssonar, Líneikar Önnu Sævarsdóttur og Vilhjálms Árnasonar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir gerði grein fyrir séráliti og tillögu þar um.

Svandís Svavarsdóttir gerði grein fyrir séráliti og tillögu þar um.

Björn Leví Gunnarsson gerði grein fyrir séráliti og tillögu þar um.

Nefndin samþykkti afgreiðslu álitanna og tillagna til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns skuli talin gild, sbr. 2. mgr. 1. gr. þingskapa.
24.11.2021 2. fundur kjörbréfanefndar Rannsókn kjörbréfa
Nefndin ræddi drög að álitum og tillögum.

Gerð var grein fyrir tilkynningu landskjörstjórnar frá 22. nóvember 2021 um útgáfu kjörbréfs handa Maríu Rut Kristinsdóttur.

Björn Leví Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun sem hann kynnti undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa á 32. fundi hennar:

Í störfum sínum hefur undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa samþykkt verklagsreglur sem kveða m.a. á um að störf nefndarinnar og málsmeðferð hennar hvað viðkemur kosningakærum skuli vera í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar, eftir því sem við getur átt. Ekki getur talist rétt að þau sem taki að sér störf í þágu nefndarinnar fyrir hönd skrifstofu Alþingis hafi haft aðkomu að málinu á fyrri stigum. Verður því að gera athugasemd við það að starfsfólk landskjörstjórnar hafi haft svo mikla aðkomu að starfi nefndarinnar sem raun ber vitni og hafi tekið þátt í að rita hið eiginlega álit nefndarinnar. Með hliðsjón af samþykktum verklagsreglum getur ekki talist eðlilegt að sama starfsfólk starfi fyrir landskjörstjórn sem leggi til úthlutun kjörbréfa og svo undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, sem ætlað er að rannsaka sömu kjörbréf. Slík tilhögun er til þess fallin að valda vafa um heilindi rannsóknarinnar, jafnvel þó að hið sama starfsfólk hafi innt starf af heilindum og faglegheitum. Þetta kann að vera sérstaklega athugunarvert í þeim tilfellum þar sem starfsfólk kann að hafa haft aðkomu að samskiptum við yfirkjörstjórnir eða kann að hafa veitt Landskjörstjórn ráðgjöf um hvernig skyldi taka á þeim málum er nú sæta kosningakærum.

Í tilefni af framangreindri bókun lögðu aðrir nefndarmenn eftirfarandi gagnbókun sem áheyrnarfulltrúi nefndarinnar tekur undir:

Nefndarmenn hafna því sjónarmiði sem kemur fram í bókun Björns Levís Gunnarssonar. Nefndarmenn lýsa yfir ánægju og fullu trausti á vinnuframlag starfsfólks Alþingis. Nefndarmenn árétta að allur sá texti sem fram kemur í greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa er á ábyrgð nefndarinnar og hefur texti greinargerðarinnar verið margræddur og yfirfarinn af öllum nefndarmönnum.
23.11.2021 1. fundur kjörbréfanefndar Rannsókn kjörbréfa
Nefndin fjallaði um greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Björn Leví Gunnarsson bókar að hann sem nefndarmaður í undirbúningsnefnd hafi ekki staðið að þeirri greinargerð.

Nefndin samþykkti að birta greinargerðina.

Nefndin ræddi fyrirkomulag næsta fundar.