Samantekt um þingmál

Skattar og gjöld

101. mál á 141. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að gera nokkrar minni háttar breytingar á skattalögum sem flestar varða framkvæmdarleg atriði.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að við endurreikning á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga (ekki í atvinnurekstri), sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012, skuli breytingar á vöxtum vegna dómsins ekki teljast til tekna. Lagðar eru til breytingar er varða vaxtabætur þegar einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi. Lagt er til að mönnum með takmarkaða skattskyldu hér á landi verði heimilt að draga leigugreiðslur af íbúðarhúsnæði erlendis frá leigutekjum af íbúðarhúsnæði hér á landi áður en til skattlagningar leigutekna kemur.
 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
Lög nr. 113/1990, um tryggingagjald.
Lög nr. 14/2004, um erfðafjárskatt.
Lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki.
 

Kostnaður og tekjur

Líklega munu þessar breytingartillögur hafa óveruleg áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs en ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárhæðir í því sambandi.
 

Umsagnir (helstu atriði)

Nokkrar umsagnir hafa borist. Viðskiptaráð Íslands og Kauphöll Íslands gagnrýna sérstaklega 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um staðgreiðslu af hagnaði af viðskiptum með verðbréf. Fjármálaráðuneytið sendi nefndinni minnisblað þar sem greinin er skýrð frekar.

Afgreiðsla

Samþykkt nær óbreytt. Meginbreyting var að tilvísun í endurútreikninga vaxta ólöglegra lána varðandi tekjur fólks var felld brott.


Síðast breytt 03.01.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.