Samantekt um þingmál

Veiðigjöld

15. mál á 142. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að afnema ákvæði í lögum um sérstakt veiðigjald.

Helstu breytingar og nýjungar

Ákvæði laganna um reiknaða rentu á þorskígildiskíló eftir veiðiflokkum og álagningu sérstaks veiðigjalds koma ekki til framkvæmda heldur verða gjöldin fastsett með líkum hætti og á yfirstandandi fiskveiðiári. Gert er ráð fyrir nýrri verðmætaviðmiðun, sérstökum þorskígildisstuðlum, til álagningar veiðigjalda í stað venjulegra þorskígilda. Þá er heimilt að seinka gjalddögum álagðra veiðigjalda í sérstökum tilvikum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á lögum nr. 74/2012 um veiðigjöld hvað varðar sérstakt veiðigjald sem átti að koma til framkvæmda við upphaf næsta fiskveiðiárs, 1. september 2013.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins lækki um 3,2 milljarða á þessu ári og 6,4 á næsta ári.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnaraðilar skiptust í tvo hópa, þá sem voru fylgjandi frumvarpinu og hina som voru á móti því. Efnislegar athugasemdir voru fáar.

Afgreiðsla

Samþykkt nær óbreytt. Kolmunnaafli var undanþeginn veiðigjaldi.

Aðrar upplýsingar

Fiskistofa.


Síðast breytt 12.09.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.