Samantekt um þingmál

Ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016

2. mál á 145. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2016.

Helstu breytingar og nýjungar

Helstu breytingarnar eru lækkun skatthlutfalls um 0,18 prósentustig í þrepi 1 og um 1,3 prósentustig í skattþrepi 2. Fyrir árið 2017 lækkar skatthlutfall í þrepi 1 aftur um 0,18 prósentustig og þrep 2 fellur út. Verða þá einungis tvö þrep með 22,50% og 31,8% skatthlutfalli. Þessi aðgerð mun lækka tekjur ríkissjóðs um 5,5 milljarða árið 2016 og um 11 milljarða árið 2017. Þá er lagt til að felldir verði niður tollar af öllum vörum öðrum en landbúnaðarafurðum og tilteknum matvælum og mun það kosta ríkissjóð um 2,5 milljarða árið 2016 og 5,7 milljarða árið 2017. Flestar aðrar breytingar eru minniháttar og tengjast framlengingu bráðabirgðaákvæða og gjaldskrárhækkun að undanskildu ákvæði um afnám ívilnunar bílaleiga af vörugjaldi en gert er ráð fyrir að það falli að fullu úr gildi 2017.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 22 lögum.
  • Skylt mál: Fjárlög 2016, 1. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 145. þingi (08.09.2015)

Kostnaður og tekjur

Lækkar tekjur ríkissjóðs um 8 milljarða árið 2016 og tæpa 15 milljarða árið 2017.

Umsagnir (helstu atriði)

Fjölmargar athugasemdir bárust og ýmsum atriðum frumvarpsins var mótmælt.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum er varða samsköttun, afnám tolla og auk þess var bílaleiguákvæðinu frestað um eitt ár.


Síðast breytt 13.01.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.