Samantekt um þingmál

Skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja

361. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að innleiða tilskipun ESB nr. 2014/59 um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Að varðveita fjármálastöðugleika og lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla með því að vernda tryggðar innstæður og fjárfesta, eignir viðskiptavina og nauðsynlega starfsemi fyrirtækja og lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sett verði ný heildarlöggjöf um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sem innleiðir í íslenskan rétt annan hluta og meginefni tilskipunar ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Frumvarpið, sem mælir fyrir um heildarumgjörð skilameðferðar, hefur m.a. að geyma ákvæði um fyrirbyggjandi aðgerðir, undirbúning, framkvæmd og lok skilameðferðar. Gert er ráð fyrir að komið verði á fót nýrri stjórnsýslueiningu sem nefnist Skilavald og fer með opinbera stjórnsýslu við skilameðferð. Að auki er kveðið á um sérstakan fjármögnunarfarveg sem nefndur er Skilasjóður og ætlað er að fjármagna skilameðferð.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018, og lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017.

Kostnaður og tekjur

Í undantekningartilvikum getur ráðherra ákveðið að beita opinberum fjármálastöðgunarúrræðum (yfirtaka ríkisins á fyrirtæki í skilameðferð eða eiginfjárframlag til þess) og komi til þess mun það hafa bein fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmd laganna muni að öðru leyti hafa bein áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, m.a. þeim að Lánasjóður sveitarfélaga ohf. og Byggðastofnun voru undanskilin gildissviði laganna og krafan um að ráðherra samþykki ákvörðun um samþykkt skilaáætlunar fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki var felld brott.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og breytingu á tilskipun ráðsins 82/891/EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012.


Síðast breytt 16.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.