Samantekt um þingmál

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráning raunverulegra eigenda

709. mál á 150. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að ljúka við að innleiða í íslenskan rétt ákvæði fimmtu peningaþvættistilskipunar ESB.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að gildissvið laganna verði útvíkkað og muni ná til lánveitenda og lánamiðlara og fríhafna sem eiga í viðskiptum með listmuni. Lögð er til breyting á skilgreiningu einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla þannig að í þeim hópi verði einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka í stað framkvæmdastjórna eins og nú er. Lagt er til að settar verði skorður við nafnlausri notkun fyrirframgreiddra korta. Rafeyrisfyrirtæki og greiðsluþjónustuveitendur, sem veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús, munu þurfa að tilnefna miðlægan tengilið. Lagt er til að komið verði á fót skrá um bankareikninga þar sem stjórnvöld, sem sinna rannsókn mála sem tengjast peningaþvætti, geta milliliðalaust nálgast upplýsingar um bankareikninga og geymsluhólf einstaklinga og lögaðila. Ríkisskattstjóri mun hafa eftirlit með almannaheillafélögum sem falla undir gildissvið laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla yfir landamæri og lagt er til að í lögum um skráningu raunverulegra eigenda verði skráningarskyldum aðilum gert skylt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja réttar upplýsingar um raunverulega eigendur og að raunverulegum eigendum verði skylt að veita upplýsingar að beiðni skráningarskylds aðila.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
Lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun falla kostnaður á ríkissjóð vegna gerðar miðlægrar skrár yfir eigendur bankareikninga og leigutaka geymsluhólfa og reksturs þess. Ekki liggur fyrir áætlun um það hve mikill þessi kostnaður geti orðið. Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á tekjur ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun (ESB) 2015/849 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverka og um breytingu á tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB (fimmta peningaþvættistilskipunin).



Síðast breytt 02.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.