Samantekt um þingmál

Atvinnuleysistryggingar

812. mál á 150. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að gera lögin skýrari og framkvæmd þeirra skilvirkari.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að bætt verði við almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi sé með skráð lögheimili á Íslandi, bæði þegar umsækjandi er launamaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna. Þá er lagt til að dregið verði úr vægi vottorða vinnuveitenda í tilviki umsókna launamanna um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt er gert ráð fyrir skýrt verði kveðið á um í lögum um atvinnuleysistryggingar að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða launamanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur skv. 32. og 33. gr. laganna þann tíma sem hann er án atvinnu frá uppkvaðningu úrskurðar um að bú félagsins skuli tekið til gjaldþrotaskipta á meðan hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa enda uppfylli hann skilyrði laganna. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði þar sem skýrt verði kveðið á um hvaða viðurlög eigi við þegar tryggður aðili, sem hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur, verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna eða að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
Lög um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt óbreytt.

Aðrar upplýsingar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016 í máli nr. E 2547/2015.



Síðast breytt 01.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.