Samantekt um þingmál

Sóttvarnalög

329. mál á 151. löggjafarþingi.
Heilbrigðisráðherra.

Markmið

Að tryggja betur samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni. Að skýra betur þær heimildir sem stjórnvöld hafa til opinberra sóttvarnaráðstafana í samræmi við kröfur lögmætisreglunnar og lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á tilteknum ákvæðum laganna en einna helst á IV. kafla um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Lagt er til að skýrð verði betur þau úrræði sem sóttvarnalæknir og ráðherra geta gripið til vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi, innan lands og hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Sóttvarnalög, nr. 19/1997.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með talsverðum breytingum. Gerðar voru breytingar á hugtakaskilgreiningum. Sóttvarnalækni var veitt heimild til að opna sóttvarnahús á vegum stjórnvalda. Fellt var brott ákvæði þess efnis að sóttvarnaráð skyldi vera sóttvarnalækni til ráðgjafar um mótun stefnu í sóttvörnum og heilbrigðisyfirvöldum um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma. Bætt var við ákvæði um að ekki skuli stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér áhættu á útbreiðslu farsóttar. Fallið var frá því að kveða á um heimild ráðherra, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, til að grípa til útgöngubanns. Fallið var frá því að ráðherra væri heimilað að skylda ferðamenn til að undirgangast ónæmisaðgerðir.

Aðrar upplýsingar




Síðast breytt 05.02.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.