Samantekt um þingmál

Upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar

415. mál á 153. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að innleiða tvær Evrópugerðir sem er ætlað að tryggja gagnsæi á fjármálamörkuðum, efla fjárfestavernd, auka traust fjárfesta, fylla í gloppur á regluverki og tryggja að eftirlitsstofnanir hafi nægar valdheimildir til að sinna verkefnum sínum.

Helstu breytingar og nýjungar

Með frumvarpinu er lagt til að tveimur reglugerðum ESB verði veitt lagagildi hér á landi. Annars vegar er um að ræða SFDR-reglugerðina en með henni eru lagðar skyldur á aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa til að birta upplýsingar um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir og í ráðgjöf og hvort, og þá hvernig, tekið er tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Hins vegar er um að ræða Taxonomy-reglugerðina en með henni er komið á fót flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku þeirra verða breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, og lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 frá 27. nóvember 2019 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR-reglugerðin).

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/852 frá 18. júní 2020 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð (ESB) 2019/2088 (Taxonomy-reglugerðin).


Síðast breytt 29.03.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.