Samantekt um þingmál

Útlendingar

944. mál á 153. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að tryggja að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu. Að jafna tækifæri innflytjenda til félagslegrar þátttöku, virkni í íslensku samfélagi og vinna gegn atvinnuleysi innflytjenda. Að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku og auka skilvirkni með einföldun ferla.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til rýmkaðar heimildir fyrir umsækjendur um dvalarleyfi, m.a. vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar, fyrir nýútskrifaða háskólanema á grundvelli sérþekkingar þeirra og fyrir doktorsnema. Einnig eru lagðar til rýmkaðar heimildir til að endurnýja dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og lengja gildistíma dvalarleyfis fyrir íþróttafólk og fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings. Heimilt verður að endurnýja dvalarleyfi þeirra sem dvelja hér á landi vegna vistráðninga samhliða auknu eftirliti. Rýmka á heimild til fjölskyldusameiningar fyrir dvalarleyfishafa í námi og í sérhæfðum störfum eða störfum þar sem skortur er á starfsfólki auk þess sem réttur breskra ríkisborgara með dvalarleyfi til fjölskyldusameiningar er áréttaður.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um útlendinga, nr. 80/2016.
Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á útgjöld ríkissjóðs sem nokkru nemur.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Tillögur starfshóps um atvinnuréttindi útlendinga utan EES. Forsætisráðuneytið, febrúar 2023.


Síðast breytt 15.09.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.