29.6.2021

Alþingi kemur saman til framhaldsfunda þriðjudaginn 6. júlí

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því í dag að hún hyggist leita atbeina forseta Íslands til að kalla Alþingi saman þriðjudaginn 6. júlí nk. þar sem lagt verður fram frumvarp til leiðréttingar á nýlega samþykktum lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka. Fyrirhugað er að þingfundur hefjist kl. 11 árdegis.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kemur saman á morgun, miðvikudag, kl. 9 árdegis, til að undirbúa framlagningu áðurgreinds leiðréttingarfrumvarps. 

Tilkynning forsætisráðuneytisins er svohljóðandi:

„Alþingi samþykkti nýverið frumvarp til laga um breytinga á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Við þinglega meðferð málsins urðu þau mistök að ákvæði um listabókstaf stjórnmálasamtaka í lögum um kosningar til Alþingis féll brott, þ.á. m. nýsamþykkt breyting sem heimilar rafræna söfnun meðmæla með heiti og listabókstaf samtaka. Að óbreyttu felur framangreint í sér að ekkert heildarákvæði um listabókstaf stjórnmálasamtaka verður í gildi fyrir komandi alþingiskosningar 25. september nk.

Nauðsynlegt er að bregðast við þessum annmarka á löggjöf fyrir komandi alþingiskosningar og því hyggst forsætisráðherra leita atbeina forseta Íslands til að kalla þing saman 6. júlí nk. þar sem lagt verður fram frumvarp sem leiðréttir þetta.“