18.12.2023

Ávarp forseta Alþingis við þingfrestun 16. desember 2023

Fundum Alþingis var frestað 16. desember 2023 til 22. janúar 2024. Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, flutti ávarp við þingfrestun og fór yfir þingstörfin:

Hv. alþingismenn. Nú er komið að lokum haustþings og brátt lýkur þessum síðasta þingfundi þessa árs og jólahlé þingsins hefst. Ég vil þakka varaforsetum samstarfið við skipulag þingstarfanna og einnig formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokkanna. Starfsliði skrifstofu færi ég enn fremur þakkir fyrir gott samstarf.

Þing kom saman á venjulegum tíma í haust, þriðjudaginn 12. september. Störf þess hafa gengið fyrir sig með venjubundnum hætti og í samræmi við þingsköp. Að vanda var fjöldi þingmála lagður fram og komu þau bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu. Við höfum afgreitt fjárlög eins og okkur ber að gera og einnig öll þau lög sem bundin eru gildistöku um áramótin og ljúka þurfti við áður en nýtt ár gengi í garð.

Samþykktir Alþingis, hvort sem þær birtast í lögum, þingsályktunum eða með öðrum hætti, skipta alla landsmenn máli. Störf Alþingis sæta í sjálfu sér alltaf tíðindum og margt af því sem hér ber við vekur athygli almennings. Það varð t.d. fréttaefni á dögunum þegar skrifstofan tók sig til og seldi húsgögn og búnað úr fórum þingsins sem ekki voru lengur not fyrir og enn meiri tíðindi voru það auðvitað þegar flutningar í nýtt skrifstofuhús Alþingis hófust um síðustu mánaðamót. Það voru gleðileg tíðindi. Frá því að bygging þessa nýja húss hófst fyrir þremur árum höfum við flest talað um nýbygginguna eða nýja húsið en já sjálfan fullveldisdeginum hlaut húsið heitið Smiðjan. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um var það niðurstaða eftir val úr miklum fjölda tillagna sem bárust frá almenningi í nafnasamkeppni sem fram fór vikurnar á undan. Er rétt að minna á að í rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu var vitnað til þess að smiðja væri sá staður þar sem þekking og efniviður mætast og þar væru tæki, tól og þekking sem væru nauðsynleg til að skila góðu dagsverki. Okkur þótti það viðeigandi sem sátum í dómnefndinni og eins þótti okkur heitið eiga vel við sökum þess að fornleifarannsóknir hafa sýnt fram á að smiðjur hafa verið á þessum stað frá landnámi. Þingmenn og starfslið Alþingis eru að flytja í Smiðjuna þessa dagana og gengur vel og verður húsið komið í fulla notkun snemma á næsta ári.

Eins og oft áður fórum við Íslendingar ekki varhluta af náttúruhamförum á árinu sem senn er á enda. Við lifum tímabil jarðhræringa og eldvirkni á Reykjanesi sem síðast gengu yfir á þeim slóðum fyrir um 800 árum. Óþarft er að rifja upp að þeir atburðir sem urðu í Grindavík hafa orðið tilefni til þess að við höfum farið í lagasetningu hér á Alþingi og á undanförnum vikum hafa verið samþykkt fjögur lagafrumvörp sem sérstaklega fela í sér viðbrögð við þeim viðburðum sem þar hafa orðið.

Áður en ég lýk máli mínu finnst mér tilefni til að nefna að á næsta ári verða tvenn tímamót sem við alþingismenn munum minnast. Fyrst ber að nefna að nú í byrjun janúar verða 150 ár liðin frá því Kristján konungur IX. staðfesti stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands. Ýmislegt var umdeilt í sambandi við setningu stjórnarskrárinnar á þeim tíma, en hún fól ótvírætt í sér mörg framfaraskref varðandi stjórnskipun landsins. Þar má bæði nefna mikilvæg mannréttindaákvæði og eins ákvæði sem styrktu stöðu Alþingis til mikilla muna. Alþingi fékk þá að nýju löggjafarvald og fjárstjórnarvald, en hafði þá frá 1845 starfað sem ráðgjafarþing. Þessara tímamóta verður minnst með viðeigandi hætti. Á næsta ári verður þess líka minnst að 80 ár verða liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi og Alþingi taka þátt í viðburðum af því tilefni með ýmsum hætti.

Hv. þingmenn. Það líður að þingfrestun og það líður að jólum og áramótum, þessum hátíðum sem notaðar eru til þess að fagna og gleðjast. Fólk safnar kröftum og býr sig undir komandi tíð. Ég óska landsmönnum öllum og hv. alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og vonast til þess að sjá alla heila og endurnærða þegar þing hefst að nýju að loknum hátíðum.