16.6.2022

Ávarp forseta Alþingis við þingfrestun 16. júní 2022

Fundum Alþingis var frestað 16. júní 2022 til 13. september 2022. Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, flutti ávarp við þingfrestun og fór yfir þingstörfin. Hann bað þingmenn jafnframt að vera undir það búna að Alþingi verði kallað saman til framhaldsfunda þegar þinginu hefur borist áður boðuð skýrsla ríkisendurskoðanda um sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka.

Ávarpið fylgir hér á eftir:

„Hv. alþingismenn. Störfum þessa þings, 152. löggjafarþings, verður nú brátt frestað. Ég bið þó þingmenn að vera undir það búna að Alþingi verði kallað saman til framhaldsfunda þegar þinginu hefur borist áður boðuð skýrsla ríkisendurskoðanda um sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka.

Vegna haustkosninga komum við ekki saman hér fyrr en 23. nóvember síðastliðinn og eiginleg þingstörf hófust ekki fyrr en 1. desember þegar lokið var á rannsókn og afgreiðslu kjörbréfa. Á þeim tíma sem liðinn er hafa 70 stjórnarfrumvörp, níu nefndarfrumvörp og tvö þingmannafrumvörp orðið að lögum. Alls hafa því 81 lög verið samþykkt á yfirstandandi þingi. Þá hafa 27 stjórnartillögur, ein nefndartillaga og ein þingmannatillaga verið samþykktar. Í heild hafa 29 þingsályktanir verið samþykktar og auk þess hefur tveimur verið vísað til ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar hafa svarað 249 fyrirspurnum skriflega og 30 munnlega. Þá svöruðu ráðherrar 200 fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnatímum. Í 11 skipti hafa ráðherrar gefið Alþingi munnlegar skýrslur um ýmis mál og sérstakar umræður hafa verið 21.

Við lok þinghaldsins vil ég þakka öllum alþingismönnum fyrir samstarfið. Eðlilega greinir þingmenn á um ýmis mál en hér á Alþingi hefur almennt ríkt góður andi og ríkur samstarfsvilji og vil ég þakka fyrir það. Sérstaklega vil ég láta í ljós ánægju mína með það ítarlega samkomulag sem þingflokkar gerðu undir lok þinghaldsins og framgang mála á síðustu dögum. Það er óskandi að okkur megi auðnast að vinna í þeim anda á komandi þingi. Ég færi varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokka fyrir mjög gott samstarf. Skrifstofustjóra Alþingis og starfsfólki Alþingis þakka ég góða aðstoð og mikið og gott starf og samvinnu í hvívetna.

Ég vil óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil þegar Alþingi kemur saman að nýju.“