22.2.2023

Fjórtán þing bætast við rafræna útgáfu Alþingistíðinda

Fyrr í þessum mánuði var aukið við rafræna útgáfu Alþingistíðinda og birtar umræður og skjöl á vefnum fyrir 14 þing frá og með 137. þingi (2009) til og með 150. þingi (2019–2020). Með þeirri viðbót er hægt að skoða skjöl og umræður í Alþingistíðindum fyrir tímabilið 1845–2020 á vefslóðinni www.althingistidindi.is. Frágangur efnisyfirlita er í vinnslu og bætist við síðar.

Prentun Alþingistíðinda var hætt 2009, en hin rafræna útgáfa er aðgengileg með sama hætti og prentútgáfa áður auk þess sem allur texti er leitarhæfur.

Hin rafræna útgáfa Alþingistíðinda er á pdf-sniði og er hin opinbera lokaútgáfa Alþingistíðinda. Gert er ráð fyrir að vísað sé til hennar um efni þingskjala og umræðna.