28.4.2009

Tölfræðilegar upplýsingar um 136. löggjafarþing

Þingið var að störfum frá 1. október til 22. desember 2008 og frá 20. janúar til 17. apríl 2009. Þingfundir voru samtals 135 og stóðu alls í 593 klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í um 16 klukkustundir og lengsta umræðan var um frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stóð í tæpar 60 klukkustundir. Þingfundadagar voru alls 93.

Af 210 frumvörpum urðu alls 100 að lögum. Eitt frumvarp var kallað aftur og 109 frumvörp voru ekki útrædd. Af 86 þingsályktunartillögum voru alls 13 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis. Ein tillaga var felld og 72 tillögur urðu ekki útræddar. Skriflegar skýrslur voru samtals 18 (þar af barst ein beiðni um skýrslu frá ráðherra og barst sú skýrsla). Eitt álit nefndar um skýrslu barst. Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 160. Munnlegar fyrirspurnir voru 73, 8 voru kallaðar aftur og 65 var svarað. Skriflegar fyrirspurnir voru 87 og var 83 svarað. Þingmál til meðferðar í þinginu voru 475. Tala prentaðra þingskjala var 966. Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 192. Munnlegar skýrslur ráðherra voru fjórar. Umræður utan dagskrár voru 29.

Á þinginu voru sex dagar teknir undir nefndastörf eingöngu og jafnframt voru sex kjördæmadagar.
Fundir þingnefnda voru 418 og stóðu þeir í 582 klukkustundir. Gestir sem komu á fundi nefnda voru 1.977.

201 þingmáli var vísað til fastanefnda og þær afgreiddu 120 mál. 123 þingmál voru send aðilum utan þings til umsagnar.

Um það bil 1.560 erindi bárust þingnefndum og einnig bárust fjárlaganefnd 676 erindi.