13.6.2007

Alþingi (134. löggjafarþingi) hefur verið frestað til septemberloka.

Alþingi, 134. löggjafarþing, kom saman til fundar fimmtudaginn 31. maí 2007. Þinginu var frestað miðvikudaginn 13. júní. Þingfundir urðu tíu og stóðu í 41 klst.

Í upphafi þings voru kjörbréf aðalmanna og jafnmargra varamanna rannsökuð. Af 24 nýjum þingmönnum höfðu 17 ekki tekið sæti á Alþingi áður og undirrituðu þeir drengskaparheit að stjórnarskránni. Sturla Böðvarsson var kosinn forseti Alþingis og kosnir voru sex varaforsetar. Kosið var í fastanefndir Alþingis og alþjóðanefndir. Nefndir héldu fundi og kusu sér formann og varaformann. Tilkynnt var um stjórnir þingflokka. 

Þingið kaus enn fremur í stjórnir, nefndir og ráð utan þings samkvæmt lögum.

Af 9 frumvörpum lögðum fram á þinginu urðu 8 að lögum en 1 var ekki útrætt. Af 4 þingsályktunartillögum voru 2 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis, 2 voru ekki útræddar. Ein beiðni um skýrslu kom fram. Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 6 og 3 umræður utan dagskrár fóru fram.

Alþingi var síðan frestað til septemberloka 2007.