18.12.2020

Tafir á veitingu ríkisborgararéttar með lögum

Af óviðráðanlegum ástæðum verða tafir á veitingu ríkisborgararéttar með lögum og er gert ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði lagt fram fyrir 1. febrúar 2021.

Allsherjar- og menntamálanefnd skipar undirnefnd til að fara yfir umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar með lögum. Umsóknir, ásamt fylgigögnum, eru afhentar nefndinni að lokinni forvinnslu Útlendingastofnunar. Nefndinni hafa borist 133 umsóknir.

Undirnefndin telur mikilvægt að vanda vel til verka við yfirferð umsóknanna og leggur áherslu á að umsækjendur fái vandaða málsmeðferð. Hins vegar hefur nefndinni verið veittur þröngur tímarammi til þessara verka og vegna óviðráðanlegra aðstæðna liggur fyrir að nefndinni gefst ekki nægur tími til þess að fara yfir þann fjölda umsókna með viðeigandi hætti. Með hliðsjón af framangreindu hefur undirnefndin ákveðið að fresta afgreiðslu frumvarps til laga um veitingu ríkisborgararéttar fyrir jól eins og tíðkast hefur. Nefndin hefur fullvissað sig um að frestun á afgreiðslu frumvarpsins muni ekki verða til þess að staða umsækjenda breytist á meðan málsmeðferð nefndarinnar stendur yfir. Nefndin mun ljúka störfum og leggja fram frumvarp fyrir 1. febrúar 2021.