12.8.2021

Þingrof og alþingiskosningar laugardaginn 25. september

Kosið verður til Alþingis laugardaginn 25. september 2021. Þetta kemur fram í forsetabréfi um þingrof og almennar kosningar sem birt var á vef Stjórnartíðinda í dag, 12. ágúst.

Í forsetabréfinu segir meðal annars að samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með vísan til 24. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sé ákveðið að þing verði rofið 25. september 2021 og að almennar kosningar til Alþingis fari fram sama dag.

Í þingrofi felst heimild handhafa framkvæmdarvaldsins (forseta Íslands að tillögu forsætisráðherra) til að stytta kjörtímabil Alþingis, en Alþingi er kjörið til fjögurra ára í senn.

Sá háttur hefur lengst af verið hafður á að forsætisráðherra tilkynni um þingrof úr ræðustól Alþingis þegar þing hefur setið, áður en forsetabréfið er birt í Stjórnartíðindum, en það er ekki skilyrði að forsetabréf um þingrof sé lesið upp á þingfundi. Síðast var tilkynnt um þingrof eins og nú var gert árið 1953.

Nýtt Alþingi skal koma saman eigi síðar en tíu vikum eftir kjördag.