Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 568  —  387. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um kennsluefni í kynfræðslu í grunnskólum.


     1.      Hver ákvað að kennslubókin Kyn, kynlíf og allt hitt eftir Cory Silverberg og Fionu Smyth yrði notuð við kynfræðslu í grunnskólum?
    Í þingsályktun nr. 37/150, sem Alþingi samþykkti hinn 3. júní 2020, um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, er ályktað að forvarnir skuli byggjast á markvissri kennslu á öllum skólastigum en inntak slíkrar kennslu er m.a. fræðsla um kynheilbrigði og kynhegðun. Með þingsályktun nr. 16/151 samþykkti Alþingi menntastefnu til ársins 2030 en þar er m.a. mikilvægi jafnréttissjónarmiða og kynfræðslu áréttað í tengslum við ógn af andlegu, líkamlegu, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, áreitni og einelti.
    Meðal annars í samræmi við framangreindar ályktanir Alþingis er kynfræðsla liður í námi og kennslu á grunnskólastigi. Samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er mennta- og barnamálaráðuneyti skylt að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt aðalnámskrá. Í umboði ráðherra annast Menntamálastofnun þá skyldu en eitt verkefna stofnunarinnar er að sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. laga um Menntamálastofnun, nr. 91/2015. Allt námsefni sem stofnunin gefur út grundvallast á gæðaviðmiðum um námsefni sem tekur m.a. til kennslufræðilegra og faglegra atriða, kennsluleiðbeininga og til sérkennslu, og er námsefnið rýnt af sérfræðingi Menntamálastofnunar á tilteknu sviði. Ákvörðun um útgáfu námsefnis liggur hjá Menntamálastofnun og ber stofnunin ábyrgð á að tryggja að það sé í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Það á við um bókina Kyn, kynlíf og allt hitt eins og annað námsefni sem gefið er út af Menntamálastofnun. 1 Annað efni hefur jafnframt verið gefið út, t.d. bókin Ég og sjálfsmyndin, fræðsluþættirnir Líkami minn tilheyrir mér og endurskoðuð útgáfa af handbók fyrir starfsfólk um ofbeldi gegn börnum og hlutverk skóla. Þá má til að mynda benda á að fyrir yngstu nemendurna kemur út í lok árs íslensk þýðing og staðfæring á norskum vef, jeg vet, en um er að ræða fræðslu um ofbeldi í víðum skilningi og miðlun þess með það að markmiði að fyrirbyggja að börn og ungmenni verði m.a. fyrir kynferðislegu ofbeldi. 2
    Val á námsefni er ávallt í höndum skóla og kennara í samræmi við þær megináherslur sem aðalnámskrá kveður á um með það að markmiði að nemendur nái þeirri hæfni sem að er stefnt.

     2.      Hverjir utan Menntamálastofnunar og ráðuneytisins komu að vali á kennslubókinni?

    Ráðuneytið kemur ekki að vali á námsefni sem Menntamálastofnun gefur út. Samkvæmt verklagi þá var leitað álits sérfræðinga áður en tekin var ákvörðun um útgáfu bókarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun var í þessu tilviki leitað álits frá grunnskólakennurum m.a. með náttúrugreinar sem sérgrein og þar með kynfræðslu, sálfræðingum, kynfræðingum, kynjafræðingum og sérfræðingum í áföllum, áfallameðferð, sálmeðferð, fjölskyldumeðferð, kynjajafnrétti, hinsegin málefnum, fræðslu, forvörnum, hinsegin fræðum, hinsegin bókmenntum og íslensku. Jafnframt var tekið mið af bæklingi Barnahúss um kynferðislega hegðun barna. 3 "> 3 Þessir sérfræðingar komu m.a. frá ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar um viðbrögð við óæskilegri kynhegðun og kynferðisofbeldi meðal barna og unglinga, Neyðarlínunni, Áfallamiðstöð Landspítalans, Jafnréttisskóla Reykjavíkur, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Stígamótum, Samtökunum ´78, Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

     3.      Hvaða viðmið lágu til grundvallar vali á kennslubókinni?
    Samkvæmt gildandi löggjöf og alþjóðlegum skuldbindingum ber íslenskum stjórnvöldum að tryggja fræðslu um kynheilbrigði, mannréttindi og kynjajafnrétti í skólakerfinu. Undir það fellur m.a. kynfræðsla, fræðsla um hinsegin málefni og fræðsla um fordóma og mismunun. Námsefni þarf jafnframt að uppfylla almenn viðmið um inngildingu á ýmsum sviðum, m.a. hvað varðar fötlun, kynþátt, uppruna, kyn, kyntjáningu, kynhneigð og kyneinkenni. Hér þarf m.a. að hafa til hliðsjónar 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, nr. 25/1975, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 og lög um grunnskóla, nr. 91/2008. Að auki þarf að hafa til hliðsjónar aðalnámskrá grunnskóla í þessum efnum.
    Þá má nefna að samkvæmt lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013, eiga börn rétt á gæðamenntun, heilsuvernd, vernd gegn ofbeldi og upplýsingum um málefni sem þau varða. Aðrar alþjóðlegar skuldbindingar sem þarf að hafa til hliðsjónar er t.d. samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi.
    Að öðru leyti vísast til umfjöllunar í svari við 1. tölul. um gæðaviðmið um námsefni sem Menntamálastofnun leggur til grundvallar.

     4.      Var sérfræðiálits aflað við val á kennslubókinni? Ef svo er, frá hvaða sérfræðingum?
    Vísað er til umfjöllunar í svari við 2. tölul. um aðkomu sérfræðinga áður en tekin var ákvörðun um útgáfu bókarinnar. Í þessu samhengi má nefna að annar höfundanna, Cory Silverberg, er með MA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði og er vottaður sérfræðingur í kynfræðslu. Bókin hefur hlotið ýmis verðlaun í Kanada þar sem hún kom fyrst út árið 2015. Bókin er unnin í samvinnu við fagfólk sem vinnur með börnum sem hafa lent í kynferðisofbeldi og er einnig studd af Alþjóðlegum samtökum um kynheilsu (e. World Association of Sexual Health, WAS).

     5.      Er kennslubókin notuð í grunnskólum annars staðar á Norðurlöndum? Ef svo er, í hvaða löndum?
    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um notkun kennslubókarinnar annars staðar á Norðurlöndum. Bókin hefur verið þýdd á átta tungumál og komið út í enn fleiri löndum. Hún hefur þó ekki verið þýdd á önnur Norðurlandamál en það þarf þó ekki að þýða að hún sé ekki notuð í einhverjum skólum þar. Fyrri bók höfundanna, What makes a baby, 4 kom út á sænsku fyrir um 7–8 árum og er notuð á leikskólastigi í Svíþjóð ásamt kennsluleiðbeiningum. 5

     6.      Verður kennslubókin notuð áfram í grunnskólum í kjölfar þeirrar umræðu sem skapast hefur um bókina og viðbragða margra foreldra?
    Líkt og kemur fram í svari við 1. tölul. er það val hvers kennara og skóla að ákveða hvaða námsefni er kennt hverju sinni. Það er mat þeirra sérfræðinga sem komu að vali á bókinni að hún geti verið mikilvægt verkfæri fyrir kennara að grípa til þegar upp koma aðstæður sem krefjast flókinnar umræðu. Það á t.d. við ef nemandi eða nemendur sýna kynferðislega hegðun sem ekki er í samræmi við aldur eða nota orð og hugtök sem aðrir nemendur hafa ekki á valdi sínu. Þá getur skipt sköpum fyrir kennara að geta gripið til bókar sem þessarar til að taka samtalið án þess að setja skömm á viðkomandi barn eða börn. Bókin styður einnig við kennara þegar kemur að því að kenna börnum að setja og virða mörk og er ekki síst hugsuð sem stuðningsefni fyrir kennara og foreldra frekar en að til þess sé ætlast að hún sé kennd frá upphafi til enda.
1    Með bókinni Kyn, kynlíf og allt hitt fylgja kennsluleiðbeiningar sem eru aðgengilegar á vef Menntamálastofnunar vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/kyn_kynlif_klb/.
2     www.jegvet.no
3     www.bvs.is/files/file951.pdf
4     olika.nu/collections/cory-silverberg
5     olika.nu/pages/fragor-hur-gors-bebisar