49. fundur
allsherjar- og menntamálanefndar á 152. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, miðvikudaginn 15. júní 2022 kl. 19:45


Mætt:

Bryndís Haraldsdóttir (BHar) formaður, kl. 19:45
Jóhann Friðrik Friðriksson (JFF) 2. varaformaður, kl. 19:45
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (ArnG), kl. 19:45
Birgir Þórarinsson (BirgÞ), kl. 19:45
Hilda Jana Gísladóttir (HJG), kl. 19:45
Kári Gautason (KGaut), kl. 19:45
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (LRS), kl. 19:45
Sigmar Guðmundsson (SGuðm), kl. 19:45

Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson voru fjarverandi.

Nefndarritari: Inga Valgerður Stefánsdóttir

Bókað:

1) Fundargerðir Kl. 19:45
Fundargerðir 47. og 48. fundar voru samþykktar.

2) 483. mál - vistmorð Kl. 19:45
Tillaga um að afgreiða málið frá nefndinni var samþykkt af öllum viðstöddum nefndarmönnum.

Að nefndaráliti meiri hluta með frávt. standa Bryndís Haraldsdóttir, Birgir Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Kári Gautason.

Að nefndaráliti minni hluta standa Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Eyjólfur Ármannsson og Hilda Jana Gísladóttir. Sigmar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur álitinu.

Eyjólfur Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

3) Veiting ríkisborgararéttar Kl. 19:50
Tillaga um að nefndin flytji frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar var samþykkt.

Nefndin bókaði eftirfarandi:
Á tímabilinu 2. október 2021 til 1. maí 2022 bárust 71 umsókn um ríkisborgararétt sem beint er til Alþingis. Undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar hafa borist nauðsynleg gögn vegna hluta þeirra umsókna. Sá hluti lá til grundvallar umfjöllunar og frumvarpi nefndarinnar um veitingu ríkisborgararéttar. Umfjöllun og meðferð annarra umsókna frestast þar til nauðsynleg gögn hafa borist.

Nefndin ítrekar beiðni sína skv. 51. gr. þingskapa þess efnis að Útlendingastofnun afhendi allar umsagnir um umsóknir sem bárust á framangreindu tímabili, sbr. bókun á 31. fundi nefndarinnar. Nefndin harmar þær tafir sem orðið hafa á afhendingu gagnanna og væntir þess að Útlendingastofnun afhendi þau eigi síðar en 31. ágúst 2022.

Nefndin hefur fengið staðfest að frestun á umfjöllun um hluta umsókna mun ekki verða til þess að staða umsækjenda breytist á meðan umsókn um ríkisborgararétt er í vinnslu.

Allsherjar- og menntamálanefnd skipar í samræmi við þinglokasamninga undirnefnd sem er falið að endurskoða ferli varðandi umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar með lögum og meðferð slíkra umsókna. Þá er undirnefndinni falið að leggja fyrir nefndina tillögur að framtíðarfyrirkomulagi og verklagi við veitingu ríkisborgararéttar með lögum eigi síðar en 15. október 2022. Undirnefndina leiðir formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndís Haraldsdóttir. Auk hennar sitja í nefndinni Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Sigmar Guðmundsson.

4) Önnur mál Kl. 20:00
Nefndin samþykkti tillögu formanns um að óskað yrði eftir því við forsætisnefnd að nefndin fengi heimild til að fara erlendis í fræðsluferð í tengslum við málefnasvið nefndarinnar.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 20:05