Skjalastefna skrifstofu Alþingis

Tilgangur

Tilgangur skjalastefnu skrifstofu Alþingis er að tryggja skýrt verklag um meðferð og varðveislu skjala þingsins þ.m.t. hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, er hafa að geyma upplýsingar og hafa orðið til, borist eða verið viðhaldið í tengslum við starfsemi og rekstur Alþingis. Skjalastefnan tekur mið af því að Alþingi ber ábyrgð á eigin skjölum, sbr. 14. gr. laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og 94. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991.

Ábyrgð

Skrifstofustjóri Alþingis ber ábyrgð á útfærslu stefnunnar með setningu verklagsreglna. Stefnan tekur til allra skjala Alþingis og nær til alls starfsfólks sem kemur að móttöku, myndun og varðveislu skjala og á einnig við um þau skjöl þingflokka og þingmanna sem óskað er eftir að skrifstofan taki til varðveislu.

Skrifstofustjóri felur skjala- og gæðastjóra ábyrgð á að unnið sé eftir skjalastefnu og verklagsreglum. Skjala- og gæðastjóri hefur umsjón með rafrænu skjalakerfi skrifstofunnar og leiðbeinir starfsfólki. Þá hefur skjala- og gæðastjóri umsjón með frágangi skjala á pappírsformi og tryggir aðgengi að þeim í skjalasafni þingsins.

Stjórnendur bera, hver á sínu sviði, ábyrgð á að unnið sé samkvæmt skjalastefnu skrifstofunnar. Upplýsingatæknideild viðheldur tækni sem rafrænt skjalakerfi skrifstofunnar byggist á.

Markmið

  • Að öll skjöl séu varðveitt á öruggan hátt, þau skráð í málaskrá og langtímavarðveisla sé tryggð.
  • Að aðgangsstjórnun skjala sé markvisst beitt í þeim tilgangi að auka öryggi gagna.
  • Að skráning skjala sé með þeim hætti að leit að skjölum sé skilvirk.
  • Að grisjun skjala sé í samræmi við reglur og áætlun sem skrifstofan setur þar um.
  • Að samræmdar verklagsreglur gildi um myndun, varðveislu og aðgengi að skjölum.

Tilvísanir

Skjalastefna skrifstofunnar byggir á eftirfarandi:

  • Málalykli er gildir fyrir málasafn skrifstofu Alþingis.
  • Skjalastaðlinum ÍST ISO 15489.
  • Reglum sem skrifstofustjóri Alþingis setur í samræmi við skjalastefnu þessa.